Enski boltinn

Ronaldo segist myndarlegri en Rooney sem sé öfundsjúkur

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney náðu vel saman í liði Manchester United og unnu til að mynda Meistaradeild Evrópu árið 2008.
Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney náðu vel saman í liði Manchester United og unnu til að mynda Meistaradeild Evrópu árið 2008. Getty/liewig christian

Cristiano Ronaldo skýtur föstum skotum að sínum gamla samherja Wayne Rooney, sem gagnrýnt hefur Ronaldo, í viðtalinu við Piers Morgan sem vakið hefur mikla athygli.

Í viðtalinu segir Ronaldo að Manhester United hafi svikið sig og að háttsettir aðilar hafi reynt að bola honum í burtu.

Þá sagðist hann enga ástæðu sjá til þess að bera virðingu fyrir knattspyrnustjóranum Erik ten Hag þar sem að Ten Hag sýndi honum enga virðingu, og að umgjörðin hjá United hefði ekkert breyst eða þróast árum saman.

Ronaldo nýtti einnig tækifærið til að hnýta í Wayne Rooney en Rooney sagði á dögunum að hegðun Ronaldos á leiktíðinni væri á köflum búin að vera óforsvaranleg.

Ronaldo neitaði til að mynda að koma inn á sem varamaður gegn Tottenham í síðasta mánuði og yfirgaf völlinn áður en flautað hafði verið til leiksloka.

„Cristiano þarf bara að setja hausinn niður og vinna vinnuna, og vera tilbúinn að spila þegar stjórinn þarf á því að halda. Ef hann gerir það verður hann mikilvægur. Ef hann gerir það ekki þá veldur hann óvelkominni truflun,“ sagði Rooney.

Við þessu brást Ronaldo í viðtalinu við Morgan með því að segja:

„Ég veit ekki af hverju hann gagnrýnir mig svona illa. Sennilega því hans ferli er lokið og ég er enn að spila á háu stigi,“ greinilega sannfærður um að gagnrýni Rooney væri vegna afbrýðisemi, og bætti við:

„Ég ætla ekki að segja að ég líti betur út en hann. Sem er satt…“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×