Enski boltinn

Arteta: Bjóst enginn við þessu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. EPA-EFE/ANDY RAIN

Sigur Arsenal á Úlfunum á laugardag var tólfti sigurleikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Liðið fer með örugga fimm stiga forystu inn í hléið sem nú hefst vegna HM í Katar. Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, sagði engan hafa búist við því að liðið myndi byrja tímabilið jafnvel og raun ber vitni.

„Það bjóst enginn við að við yrðum þar sem við erum núna. Ég einbeiti mér að leikstíl okkar, lifnaðarháttum okkar, andrúmsloftinu í Colney [æfingasvæði liðsins] og því sem við höfum skapað með stuðningsfólki okkar á heimavelli. Það er mun áhrifaríkara,“ sagði Arteta í viðtali eftir 2-0 sigurinn á Úlfunum.

Arsenal er í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og ef fer sem horfir tekst liðinu loks að landa enska meistaratitlinum, eitthvað sem hefur ekki gerst síðan árið 2004.

„Það er frábært að vera þar sem við erum, við erum að njóta augnabliksins. Nú kemur löng pása og við þurfum að fara yfir það sem við erum að gera. Við erum meira en tilbúnir í það sem gerist eftir heimsmeistarakeppnina.“

„Þegar liðum gengur svona vel vilja þau halda áfram að spila en það er ekki hægt í okkar tilviki. Við þurfum því að nýta tímann eins vel og auðið er.“

„Markmið okkar er að spila betur sem lið á hverjum degi, að eiga betri tæki og tól til að gera það sem við viljum á vellinum,“ sagði Arteta að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×