Fótbolti

Norðmaðurinn sá um Úlfana

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Ødegaard skoraði bæði mörk Arsenal í kvöld.
Martin Ødegaard skoraði bæði mörk Arsenal í kvöld. Harriet Lander/Getty Images

Norðmaðurinn Martin Ødegaard skoraði bæði Arsenal er liðið vann öruggan 0-2 útisigur gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Sigurinn þýðir að Arsenal verður með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar HM-pásan langa tekur við.

Gestirnir í Arsenal voru sterkari aðilinn í kvöld, en þrátt fyrir það tókst liðinu ekki að brjóta ísinn í fyrri hálfleik og staðan því enn markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Martin Ødegaard kom gestunum þó yfir snemma í síðari hálfleik eftir stoðsendingu frá Fabio Vieira og Skytturnar gátu andað léttar.

Sá norski var svo aftur á ferðinni þegar um stundarfjórðugur var til leiksloka, en boltinn datt þá fyrir hann eftir fína vörslu Jose Sá í marki Úlfanna.

Niðurstaðan því nokkuð öruggur 0-2 sigur Arsenal sem nú er með fimm stiga forskot á toppnum eftir að Englandsmeistarar Manchester City þurftu að sætta sig við óvænt 1-2 tap gegn Brentford fyrr í dag.

Arsenal með 37 stig eftir 14 leiki, en Úlfarnir enn á botni deildarinnar með aðeins tíu stig. Nú tekur við löng pása hjá liðunum þar sem Heimsmeistaramótið í Katar hefst í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×