Erlent

Penn lánar Selenskí Óskarsverðlaunin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Penn og Selenskí skiptust á verðlaunum.
Penn og Selenskí skiptust á verðlaunum. AP

Leikarinn og leikstjórinn Sean Penn er staddur í Úkraínu, þar sem hann fundaði meðal annars með Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta og lánaði honum annan af tveimur Óskarsverðlaungripum sínum. Bað hann Selenskí að skila styttunni til Malibu þegar Úkraínumenn hefðu haft sigur af Rússum.

Penn, sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki fyrir bæði Mystic River og Milk, er sagður vinna að heimildarmynd um innrás Rússa í Úkraínu og hefur áður heimsótt og fundað með Selenskí.

„Þetta er bara táknrænn kjánalegur hlutur en ef hann er hér líður mér betur og nógu sterkur fyrir átökin,“ sagði Penn við Selenskí. „Komdu með hann til Malibu þegar þú vinnur, því mér líður miklu betur vitandi að partur af mér er hér.“

Selenskí þakkaði fyrir sig með því að veita Penn heiðursorðu, sem hann sagði reyndar ekki frá sér heldur frá Úkraínu.

„Það eru þrír staðir þar sem stoltið mitt býr; staðurinn þar sem dóttir mín fæddist, staðurinn þar sem sonur minn fæddist og hér,“ sagði Penn þegar hann tók við verðlaununum.

Leikarinn hafði áður hótað því að bræða verðlaunastytturnar ef Selenskí yrði ekki boðið að ávarpa Óskarsverðlaunahátíðina í ár. Samkvæmt reglum akademíunnar er óheimilt að selja eða losa sig við verðlaunagripina.

Penn og kollegi hans Ben Stiller eru meðal þeirra sem settir hafa verið á bannlista í Rússlandi, vegna heimsókna sinna til Úkraínu og yfirlýsts stuðnings við úkraínsku þjóðina. Þess ber að geta að Selenskí var sjálfur leikari áður en hann var kjörinn forseti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×