Haaland kom inn af bekknum og tryggði City sigur á loka­sekúndunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar sigurmarki sínu í dag.
Erling Haaland fagnar sigurmarki sínu í dag. Vísir/Getty

Erling Haaland hefur verið að glíma við meiðsli og var í fyrsta skipti í leikmannahópi City síðan í Meistaradeildarleik gegn Dortmund í október.

Varamaður Haaland, Julian Alvarez, nýtti tækifæri sitt vel í dag og kom City yfir á 16.mínútu leiksins. Tíu mínútum síðar braut hins vegar Joao Cancelo á Harry Wilson inni í vítateig City. Vítaspyrna var dæmd og Cancelo fékk rautt spjald.

Andreas Pereira skoraði úr vítaspyrnunni og Fulham skyndilega komið í ágæta stöðu á Etihad vellinum þar sem City hefur ekki tapað stigum á tímabilinu hingað til.

Þrátt fyrir að vera manni færri var það Manchester City sem stjórnaði leiknum. Erling Haaland kom inn af bekknum á 64.mínútu og rúmum tíu mínútum síðar skoraði hann með skalla eftir sendingu frá Kevin De Bruyne en markið var dæmt af af myndbandsdómurum vegna rangstöðu.

City hélt áfram að pressa og sú pressa skilaði árangri að lokum. Antonee Robinson gerði sig sekan um klaufalegan varnarleik í uppbótartíma þegar hann sparkaði í De Bruyne í vítateignum. Darren England benti á vítapunktinn, fram steig Erling Haaland og skoraði úr spyrnunni þrátt fyrir að Bernd Leno hafi verið nálægt því að verja.

Manchester City fagnaði því þremur stigum og fer uppfyrir Arsenal í töflunni og í efsta sæti deildarinnar. Arsenal á þó leik á morgun gegn Chelsea og getur náð efsta sætinu á nýjan leik með sigri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira