Erlent

Málaði upp dökka mynd af stöðu lýðræðis í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AP/Andrew Harnik

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hvatti Bandaríkjamenn til að nýta kosningarétt sinn í þingkosningunum í næstu viku til að standa upp í hárinu á lygum og ofbeldi öfgamanna í röðum Repúblikana. Forsetinn varaði við því að þeir væru að reyna það sama og þeir reyndu í kosningunum árið 2020 og það væri að grafa undan kosningum og tryggja sér sigur án meirihluta kjósenda.

Biden sagði ekki hægt að standa á hliðarlínunum á meðan á þessu gengi.

Forsetinn vísaði orðum sínum að mestu til það sem hann kallaði „öfga MAGA“-Repúblikana og vísaði þar til stuðningsmanna Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og sagði þá minnihluta en fara með stjórnartaumana í Repúblikanaflokknum.

Sjá einnig: Útlitið dökknar fyrir demókrata á lokasprettinum

Biden fór hörðum orðum um Trump og það hvernig hann hefði haft slæm áhrif á stjórnmál og Bandaríkin í heild sinni.

Aukin hætta á pólitísku ofbeldi

Hann fjallaði einnig um árásina á Paul Pelosi, eiginmann Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, þar sem maður réðst á hann með hamri og sagðist hafa ætlað að taka Nancy Pelosi í gíslingu. Biden sagði lygar um stolnar kosningar hafa aukið hættuna á pólitísku ofbeldi og ógnanir á undanförnum tveimur árum, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

„Það er ískyggilega mikil fjölgun á fólki í þessu landi sem er tilbúið til að líða pólitískt ofbeldi eða einfaldlega standa á hliðarlínunni,“ sagði Biden. „Í beinum okkar vitum við að lýðræðir er í hættu en við vitum einnig að það er á valdi okkar að verja lýðræðið.“

Biden beindi orðum sínum að hundruðum frambjóðenda Repúblikanaflokksins í þingkosningunum í næstu viku sem hafa neitað að viðurkenna niðurstöður forsetakosninganna 2020 og hafa jafnvel sagst ekki ætla að viðurkenna ósigur í komandi kosningum.

Það sagði Biden vera fordæmalaust og slíkt viðhorf færi gegn lögum og anda Bandaríkjanna. Það leiddi til óreiðu.

Biden bað kjósendur um að hugsa sig vel um áður en þeir greiddu atkvæði.

„Á hefðbundnu ári stöndum við ekki oft frammi fyrir þeirri spurningu hvort atkvæði okkar muni varðveita lýðræðið eða ógna því. Við gerum það á þessu ári,“ sagði Biden.

Sjá einnig: Hafa áhyggjur af lýðræðinu en setja það ekki í forgang

„Ég vona að þið gerið framtíð lýðræðis okkar að mikilvægum lið í ákvörðun ykkar um að kjósa og hvernig þið kjósið.“

AP hefur tekið saman helstu hluta ræðu Bidens og má sjá þá í spilaranum hér að neðan. Áhugasamir geta horft á alla ræðu Bidens hér.

Í frétt Washington Post segir að Alríkislögregla Bandaríkjanna og aðrar löggæslustofnanir hafi varað við því að hættan á pólitísku ofbeldi verði mikil eftir kosningarnar. Minnst fimm hafi verið ákærðir fyrir að ógna og hóta kosningastarfsmönnum í aðdraganda kosninganna .

Kosningastarfsmenn eiga von á því að Repúblikanar ætli að senda fjölda fólks til að vakta kjörstaði en bandamenn Trumps hafa lagt til að þetta fólk leggi fram ítrekaðar kvartanir og búast sérfræðingar við miklum truflunum á kosningakerfinu í næstu viku.

Ekki fyrsta viðvörun Bidens

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Biden varar við því að Repúblikanar ógni lýðræði Bandaríkjanna. Hann gerði það einnig í byrjun september í ræðu sem hann hélt í Boston.

„Of mikið af því sem er að gerast í landinu okkar í dag er ekki eðlilegt,“ sagði Biden. „Donald Trump og MAGA-Repúblikanar tákna öfgar sem ógna grundvelli lýðveldis okkar,“ sagði Biden þá.

Sjá einnig: Segir MAGA-Repúblikana ógna Bandaríkjunum

Ummæli Bidens eru ekki úr lausu lofti gripin. Fjölmargir frambjóðendur Repúblikanaflokksins hafa lýst því yfir að þeir muni ekki viðurkenna úrslit kosninganna sem þau taka þátt í, nema þau vinni.

Tim Michels, sem býður sig fram til embættis ríkisstjóra í Wisconsin í Bandaríkjunum, sagði til að mynda á kosningafundi með stuðningsmönnum sínum á þriðjudaginn að ef hann yrði ríkisstjóri, myndu Repúblikanar aldrei aftur tapa kosningum í Wisconsin. Hann er verktaki og nýtur stuðnings Trumps.

Michels hefur neitað að segja hvort að hann, sem ríkisstjóri, myndi staðfesta niðurstöður forsetakosninga í Wisconsin þar sem Demókrati hefði unnið. Hann er einn af fjölmörgum frambjóðendum Repúblikanaflokksins sem hafa slegið á svipaða strengi.


Tengdar fréttir

Biden tekur olíufélögin á beinið fyrir svívirðilegan gróða

Bandaríkjaforseti segir olíufélögin græða svívirðilega á kostnað tugmilljóna manna sem þjáist vegna stríðsins í Úkraínu. Þau hafi brugðist samfélaginu á sama tíma og þau maki krókinn. Auki þau ekki framleiðsluna og lækki verð til neytenda geti þau búist við að skattahækkunum og öðrum aðgerðum.

Kvartar yfir „grimmum, hlutdrægum og kvikindislegum“ dómara

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir að sem stjórnmálamaður eigi hann rétt á grið frá dómskerfi Bandaríkjanna þar til þingkosningarnar í næsta mánuði eru búnar. Trump fór í gær hörðum orðum yfir dómara sem heldur utan um eitt af þremur dómsmálum gegn honum í New York-ríki.

Sakfelldir fyrir ráðabrugg um að ræna ríkisstjóra

Þrír karlmenn á þrítugs og fimmtungsaldri voru sakfelldir fyrir að leggja á ráðin um að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan. Mennirnir tilheyrðu vopnaðri öfgasveit sem mislíkaði aðgerðir Whitmer til að stemma stigu við kórónuveirufaraldrinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×