Erlent

Hyggjast halda opin réttarhöld yfir þúsundum mótmælenda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konur hafa mótmælt með því að brenna slæður sínar og skera hár sitt.
Konur hafa mótmælt með því að brenna slæður sínar og skera hár sitt. AP

Dómstólar í Íran hyggjast halda opin réttarhöld yfir allt að þúsund einstaklingum sem voru handteknir í mótmælum í Tehran og fleiri en þúsund mótmælendum sem voru handteknir annars staðar í landinu.

Um er að ræða fólk sem flykktist út á götur landsins í kjölfar þess að hin 22 ára Mahsa Amini lést í varðhaldi eftir að hafa verið handtekinn af siðferðislögeglu fyrir að fara ekki að lögum um slæðuburð.

Konur og námsmenn hafa verið í fararbroddi mótmælanna. Búið er að rétta yfir nokkrum þeirra sem hafa verið handteknir en það er til marks um réttlætið sem dómsvaldið útdeilir að Mohammad Ghobadlo, 22 ára, var dæmdur til dauða fyrir þátttöku sína í mótmælunum, eftir réttarhöld sem vörðu í einn dag.

Að sögn móður Ghobadlo hafa sakborningar ekki fengið að hafa lögmenn með sér í dómsal.

Að minnsta kosti 253 hafa látið lífið í mótmælunum, þeirra á meðal 34 börn. Þá hafa mörg þúsund manns verið handteknir. 

Valdamenn í Íran eru sagðir skiptast í tvo hópa hvað varðar mögulegar lausnir á mótmælaöldunni; annars vegar að handtaka fólk og fangelsa og hins vegar að reyna að efna til viðræðna til að ná samfélagssátt.

Framganga stjórnvalda hefur vakið hörð viðbrögð á Vesturlöndum og þá hefur verið kallað eftir því að Írönum verði bönnuð þátttaka í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en einnig vegna sölu þeirra á drónum og vopnum til Rússa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×