Enski boltinn

„Erum á réttri leið en það er enn langur vegur fram­undan“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik ten Hag og David De Gea að leik loknum. Spánverjinn átti mjög góðan leik í dag.
Erik ten Hag og David De Gea að leik loknum. Spánverjinn átti mjög góðan leik í dag. EPA-EFE/ANDREW YATES

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, var virkilega ánægður með markið sem hans menn skoruðu í 1-0 sigrinum á West Ham United í dag. Hann var ekki alveg jafn sáttur með frammistöðuna í leiknum.

„Mér fannst markið okkar frábært. Christian Eriksen átti mjög góða sendingu og skallinn frá Marcus Rashford var algjör hamar,“ sagði Ten Hag að leik loknum en Rashford var þarna að skora sitt 100. mark fyrir Man United.

„Það er frábært að leikmaður úr akademíunni sé að skora 100. markið sitt á 85 ára afmæli akademíunnar. Hann virkilega sýnir hvað Man United stendur fyrir og að sú vinna sem akademían leggur á sig skilar sér. Og á morgun verður Marcus Rashford 25 ára, frábær afmælisgjöf verð ég að segja.“

„Í okkar hugmyndafræði verjumst við á öllum 11 leikmönnunum. Það var erfitt í upphafi en við vinnum saman, andinn í liðinu er góður eins og sást. Hver einasti skalli, þeir styðja hvorn annan frá upphafi til enda. Stuðningsfólkið kann að meta það og þú sérð tenginguna sem er að myndast á milli leikmanna og fólksins í stúkunni.“

„Við verðum að stjórna leiknum betur í síðari hálfleik en andinn sem við búum yfir er frábær. Við höfum gæðin til að skora mörk en við verðum að vera betri þegar kemur að því að klára færi. Við erum á réttri leið en það er enn langur vegur framundan,“ sagði Ten Hag að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×