Fyrri hálfleikur á Old Trafford í kvöld var ekki mikið fyrir augað en gestirnir úr Lundúnum sátu til baka og ætluðu augljóslega að sækja hratt þegar það væri möguleiki til. Heimamenn virkuðu lúmskt þreyttir eftir mikið álag undanfarið en liðið var án brasilíska vængmannsins Antony í dag og það sást vel á sóknarleik liðsins.
Það voru komnar 38 mínútur á klukkuna þegar Marcus Rashford braut ísinn með frábærum skalla eftir enn betri undirbúning Bruno Fernandes og Christian Eriksen. Sá danski átti magnaða sendingu inn á teig þar sem Rashford kom á ferðinni og skallaði boltann af öllu afli í netið og staðan 1-0 er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Um var að ræða 100. mark Rashford í treyju Manchester United.
100 - Marcus Rashford has become the 22nd player to score 100 goals for @ManUtd, and the first player to reach this milestone for the club since Wayne Rooney in 2009. Centurion. pic.twitter.com/f46eFtMT77
— OptaJoe (@OptaJoe) October 30, 2022
Síðari hálfleikur var líkur þeim fyrri en gæðin voru ekki mikil. Hægt og rólega tóku gestirnir völdin en heimamenn lögðust alltaf aftar og aftar. Dýraníðingurinn Kurt Zouma hélt hann hefði jafnað metin fyrir gestina með frábærum skalla undir lok leiks en David De Gea varði meistaralega í marki Man United.
Varamaðurinn Fred hélt svo að hann hefði tryggt sigur heimamanna en skalli hans fór í stöngina og út. Aftur fengu gestirnir góð færi en Harry Maguire kom í veg fyrir að skot Jarrod Bowen færi í netið og þá varði De Gea aftur meistaralega eftir skot Declan Rice.
Það verður seint sagt að Man United hafi spilað vel en liðið hélt út og vann mikilvægan 1-0 sigur. Man Utd er með 23 stig í 5. sæti. West Ham er 13. sæti með 14 stig.