Fyrsta tap Potter sem stjóri Chelsea kom gegn gamla félaginu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Graham Potter mátti þola sitt fyrsta tap sem stjóri Chelsea gegn sínu gamla félagi.
Graham Potter mátti þola sitt fyrsta tap sem stjóri Chelsea gegn sínu gamla félagi. Alex Pantling/Getty Images

Brighton & Hove Albion vann sterkan 4-1 sigur er liðið tók á móti sínum fyrrum stjóra, Graham Potter, og lærisveinum hans í Chelsea í dag. Þetta var fyrsta tap Chelsea eftir að Potter tók við stjórnartaumunum.

Heimamenn í Brighton komust yfir strax á fimmtu mínútu leiksins með marki frá Leandro Trossard og tæpum tíu mínútum síðar varð Ruben Loftus-Cheek fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og staðan því orðin 2-0.

Heimamenn fóru svo með 3-0 forystu inn í hálfleikinn eftir að Trevoh Chalobah varð einnig fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og brekkan því brött fyrir gestina í síðari hálfleik.

Kai Havertz minnkaði muninn fyrir Chelsea strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks, en Pascal Gross endurheimti þriggja marka forystu heimamanna með marki í uppbótartíma og niðurstaðan því 4-1 sigur Brighton.

Brighton situr nú í sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig eftir 12 leiki, þremur stigum á eftir Chelsea sem situr í fimmta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira