Íslenski boltinn

Heimaleikjabann Víkinga fellt niður

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn Víkings geta mætt í Víkina á næsta heimaleik eins og þeir hafa verið duglegir við að gera síðustu misseri. Þeir fögnuðu vel sigrinum gegn FH í bikarúrslitaleiknum.
Stuðningsmenn Víkings geta mætt í Víkina á næsta heimaleik eins og þeir hafa verið duglegir við að gera síðustu misseri. Þeir fögnuðu vel sigrinum gegn FH í bikarúrslitaleiknum. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Ekkert verður af fyrsta heimaleikjabanninu í sögu íslensks fótbolta, sem Víkingur Reykjavík átti að sæta, því áfrýjunardómstóll KSÍ hefur fellt úrskurð þess efnis úr gildi.

Víkingur, FH og Knattspyrnusamband Íslands hlutu öll refsingu hjá aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vegna óláta á úrslitaleik Mjólkurbikars karla sem fram fór á Laugardalsvelli 1. október, þar sem Víkingar fögnuðu sigri í framlengdum leik.

Víkingur fékk hámarkssekt upp á 200.000 krónur og FH 50.000 króna sekt, vegna hegðunar stuðningsmanna, en Víkingur var þar að auki úrskurðaður í eins leiks heimaleikjabann.

Í dómi áfrýjunardómstólsins er vitnað í skýrslu frá eftirlitsmanni KSÍ þar sem segir að stuðningsmenn Víkings hafi í að minnsta kosti þrígang kveikt á blysum, sungið níðsöngva um leikmann og þjálfara FH, og ölvun þeirra verið sýnileg. Þá hljóp stuðningsmaður Víkings inn á völlinn.

Í dómnum er lögð rík áhersla á að um alvarleg brot sé að ræða, þó að heimaleikjabannið sé fellt niður. Rökin fyrir því eru fyrst og fremst að dómnum þykir ekki sýnt fram á að öryggi leikmanna, þjálfara og annarra teljist ótryggt á heimaleikjum Víkings. Framkvæmd bikarúrslitaleiksins, og þar með öryggismál, hafi ekki verið í höndum félagsins heldur KSÍ.

Víkingar sættu sig við sektina en áfrýjuðu úrskurðinum um heimaleikjabann og nú hefur áfrýjunardómstóllinn dæmt félaginu í hag.

Stuðningsmenn Víkings geta því fjölmennt á síðasta heimaleik tímabilsins sem er gegn KR næsta mánudagskvöld, í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×