Enski boltinn

Klopp: Ég myndi hata sjálfan mig ef þetta væri satt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp var yfirspenntur í leik Liverpool og Manchester City á Anfield um helgina.
Jürgen Klopp var yfirspenntur í leik Liverpool og Manchester City á Anfield um helgina. Getty/Laurence Griffiths/

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur verið sakaður um útlendingahatur eftir ummæli sín um Manchester City um helgina og það af forráðamönnum City.

Liverpool vann leikinn 1-0 en Klopp fékk að líta rauða spjaldið í leiknum og er væntanlega á leiðinni í bann.

Það er ekkert til að minnka spennuna á milli félaganna og erkifjendanna að nú ásaka forráðamenn Manchester City stjóra Liverpool um útlendingahatur en það tjáðu þeir ESPN og fleiri fjölmiðlum.

Þetta er í tengslum við ummæli Klopp um að enginn geti keppt við Manchester City vegna yfirburðar peningastöðu félagsins.

Eigendur City eru olíugarkar frá Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. ESPN vildi fá þá tala um ásakanirnar undir nafni en þeir voru ekki reiðubúnir í það.

Klopp var aftur á móti spurður út í þetta á blaðamannafundi fyrir leik liðsins á móti West Ham í kvöld.

„Í þessu sérstaka máli þá tek ég þetta alls ekkert til mín. Ég þekki sjálfan mig og þú getur ekki náð höggi á mig með því að saka mig um eitthvað sem er langt frá mínum persónuleika,“ sagði Jürgen Klopp.

„Ef ég væri svona, man reyndar ekki hvað orðið er [xenophobic, útlendingahatur], þá myndi ég hata sjálfan mig fyrir að vera þannig,“ sagði Klopp.

Klopp hafnaði því um leið að ummæli hans um fjárhagsyfirburði Manchester City séu byggð á útlendingahatri.

„Oft segi ég hluti sem er hægt að misskilja. Ég veit af því en það er ekki viljandi. Stundum lætur þú hluti út úr þér en áttar þig seinna á því að það væri auðvelt að misskilja það. Þetta tilfelli er samt ekki eitt af þeim skiptum,“ sagði Klopp.

„Augljóslega sjá ekki allir fjölmiðlamenn þetta sömu augum. Sumir ritstjórar sjá þetta öðruvísi. Þetta er frjáls heimur og við getum haft mismunandi skoðanir. Þannig er það bara og ekkert meira um það að segja,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×