Erlent

Finnst ekki tveimur dögum eftir að hafa keppt án slæðu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fjölskylda Elnaz Rekabi veit ekki hvar hún er niðurkomin.
Fjölskylda Elnaz Rekabi veit ekki hvar hún er niðurkomin.

Íranska klifurkonan Elnaz Rekabi er nú horfin, tveimur dögum eftir að hafa keppt á klifurmóti í Suður-Kóreu án þess að nota slæðu. Fjölskylda hennar hefur ekki náð sambandi við hana síðan í gær.

Rekabi var í Suður-Kóreu að keppa fyrir hönd Íran á Asíumótinu í klifri. Eftir að hún keppti án þess að vera með slæðu var hún færð í íranska sendiráðið í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, svo hægt væri að koma henni heim án þess að hún yrði fyrir áreiti. Miðað við frétt The Guardian um málið voru yfirvöld í Íran ekki sátt með þetta útspil hennar.

Frá því að hún var tekin í sendiráðið hefur þó engum tekist að hafa samband við hana. Í grein The Guardian segir að henni verður flogið heim í dag en íranska sendiráðið í Seúl segir að það sé búið að reka hana úr Suður-Kóreu.

Rekabi er ein fremsta klifurkona heims. Í fyrra varð hún sú fyrsta í sögu Íran til að vinna til verðlauna á heimsmeistaramótinu. Á Asíumótinu um helgina varð hún í fjórða sæti.

Mikið hefur gengið á í Íran síðustu vikur eftir dauða Möshu Amini, 22 ára gamallar konu, en hún lést í haldi siðgæðislögreglu Íran fyrir að notast ekki við slæðu á almannafæri. Mótmælt er daglega á götum Íran og hefur fjöldi kvenna tekið upp á því að brenna slæður sínar til að mótmæla harðri slæðuskyldu í landinu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem írönsk íþróttakona fer gegn klæðareglum landsins en árið 2019 keppti Sadaf Khadem í hnefaleikum í Frakklandi. Þá var hún ekki með slæðu og var í stuttbuxum. Eftir bardagann ákvað hún að verða eftir í Frakklandi þar sem handtökuskipun hafði verið gefin út í heimalandinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×