Erlent

Orrustuþota brotlenti á fjölbýlishúsi í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill eldur kviknaði í húsinu en um sex hundruð manns er sögð búa þar.
Mikill eldur kviknaði í húsinu en um sex hundruð manns er sögð búa þar. AP

Rússnesk orrustuþota brotlenti á fjölbýlishúsi í borginni Yeysk í suðurhluta Rússlands í dag. Minnst tveir eru látnir en mikill eldur kviknaði í húsinu við brotlendinguna.

Nítján eru sagðir særðir en þar af eru fjórir sagðir í alvarlegu ástandi. Flugmennirnir skutu sér úr flugvélinni og eru sagðir hafa sloppið

Orrustuþotan er sögð hafa verið af gerðinni Sukhoi Su-34.

Myndbönd náðist af brotlendingunni en sjá má nokkur þeirra hér neðar í fréttinni. það hefur þó vakið athygli að myndefni af atvikinu virðist sýna sprengingar um borð í þotunni áður en hún lenti á húsinu.

Reuters segir eld hafa kviknað í einum af hreyflum þotunnar við flugtak. Flugstöð er nærri bænum og eftir að eldurinn kviknaði er orrustuþotan sögð hafa lent á fjölbýlishúsinu.

Myndband úr borginni sýnir íbúa nálgast annan manninn úr áhöfn þotunnar og spyrja hvort hann hafi verið skotinn niður. Hann sagði svo ekki vera.

RIA-fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur eftir embættismönnum í Yeysk að um sex hundruð manns búi í fjölbýlishúsinu. Þá segir miðillinn að búið sé að hefja rannsókn á tildrögum slyssins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×