Erlent

Stjörnukokkurinn Heston Blumenthal fékk sína verstu máltíð á Íslandi

Eiður Þór Árnason skrifar
Heston Blumenthal er einn þekktasti kokkur Breta.
Heston Blumenthal er einn þekktasti kokkur Breta. Getty/Stuart C. Wilson

Breski sjónvarpskokkurinn Heston Blumenthal átti eina verstu matarupplifun sína á Íslandi þegar hann lagði sér kæsta skötu til munns. Er þetta eina skiptið sem líkami hans hafnaði máltíð með svo afgerandi hætti að hún staldraði stutt við.

Þetta kemur fram í viðtali við stjörnukokkinn í breska miðlinum The Guardian í dag. Blumenthal hefur komið að gerð fjölda matreiðsluþátta í Bretlandi og hefur vakið athygli fyrir nýstárlegar eldunaraðferðir, bragðsamsetningar og svokallaða fjölskynjunarmatargerð.

Í viðtalinu er kokkurinn meðal annars spurður að því hvort það sé einhver matur sem hann þoli ekki. Þar stendur ekki á svörum.

„Eini maturinn sem ég man eftir að hafi gert það að verkum að hálsinn sagði restinni af líkama mínum að fara til fjandans fékk ég á fiskveiðibát á Íslandi. Þar fékk ég kæsta skötu sem er gerjuð skata. Ég held að þau hafi áður migið á hana en grafi hana núna til að ná fram ammoníakinu.“

Hrifnari af íslenska þorskinum

Kokkurinn tekur fram að skatan hafi litið út fyrir að vera fullkomlega elduð og að eldri kynslóðin á Íslandi telji kæsta skötu vera hið mesta lostæti.

„En ég reyndi að kyngja henni og hálsinn á mér slöngvaði fisknum beinustu leið út úr munninum á mér. Líkami minn eða maginn tilkynnti: „Nei, þú færð ekki að koma hér inn fyrir.““

Blumenthal mærði íslenskan þorsk í auglýsingu fyrir bresku verslunarkeðjuna Waitrose árið 2011. Þar er hvergi minnst á skötuna góðu sem hefur ekki komist á lista yfir helstu útflutningsvörur Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×