Íslenski boltinn

Jörundur Áki ráðinn sviðs­stjóri knatt­spyrnu­sviðs KSÍ

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jörundur Áki er kominn í nýtt starf hjá KSÍ.
Jörundur Áki er kominn í nýtt starf hjá KSÍ. Vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Jörund Áka Sveinsson sem sviðsstjóra knattspyrnusviðs. Þetta var staðfest á vefsíðu KSÍ fyrr í kvöld.

Í júlí á þessu ári tók Jörundur Áki tímabundið við yfirumsjón þeirra verkefna sviðsstjóra knattspyrnusviðs sem snúa að yngri landsliðum karla og kvenna, auk ýmissa annarra verkefna.

KSÍ auglýsti síðan stöðuna í ágúst og alls bárust fjórar umsóknir. Sviðsstjóri knattspyrnusviðs ber ábyrgð á faglegu starfi KSÍ á knattspyrnusviði og heyrir undir framkvæmdastjóra.

Helstu verkefnum og ábyrgð sviðsstjóra knattspyrnusviðs er lýst hér að neðan og mun Jörundur í starfi sínu hafa aðkomu að þjálfun yngri landsliða og vinna náið með þjálfurum A landsliða.

Helstu verkefni og ábyrgð sviðsstjóra knattspyrnusviðs KSÍ

Sviðsstjóri knattspyrnusviðs vinnur að því að efla faglega þekkingu og framþróun á knattspyrnusviði sambandsins þannig að sviðið standist alþjóðlegan samanburð. Sviðsstjóri hefur auk þess umsjón með markmiðasetningu því tengdu og vinnur að þróun afreksstefnu sambandsins.

  • Yfirumsjón með samskiptum við aðildarfélög sambandsins og yfirþjálfara þeirra þegar kemur að eflingu og stuðningi við þeirra faglega starf.
  • Sviðsstjóri er ábyrgur fyrir samræmingu og framþróun á vinnubrögðum við þjálfun landsliða og ber að sjá til þess að sú þekking sem er innan KSÍ nýtist íslenskri knattspyrnu sem best.
  • Starfar með landsliðsnefndum KSÍ og öðrum fastanefndum eftir atvikum.
  • Aðkoma að áætlanagerð og skipulagningu við rekstur knattspyrnusviðs og starfsmannahaldi þess í samráði við framkvæmdastjóra.
  • Aðkoma að þjálfun landsliða.

Nánar um starfið má lesa á vef KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×