Salah hetjan þegar Liver­pool varð fyrsta liðið til að leggja Man City að velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markið sem skildi liðin að.
Markið sem skildi liðin að. EPA-EFE/PETER POWELL

Liverpool hafði betur gegn Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar þessa helgina. Lokatölur 1-0 á Anfield þar sem Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins. Um er að ræða fyrsta tap Man City í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Fyrri hálfleikur var heldur bragðdaufur ef miðað er við leiki liðanna undanfarin misseri. Í síðari hálfleik lifnaði heldur betur yfir leiknum og má líkja honum við borðtennis á löngum köflum. Boltinn fór teiga á milli á ótrúlegum hraða.

Phil Foden hélt að hann hefði komið Man City yfir á 53. mínútu þegar hann skilaði knettinum í netið af stuttu færi við mikinn fögnuð gestanna.

Fagnaðarlætin voru til einskis.EPA-EFE/PETER POWELL

Anthony Taylor, dómari leiksins, fór hins vegar í skjáinn eftir ábendingu frá myndbandsdómara leiksins og dæmdi markið af þar sem Erling Braut Håland braut á Fabinho í aðdraganda marksins. Reyndar virtist Håland einnig brjóta á Alisson í aðdragandanum og því í raun um tvo brot að ræða.

Bæði lið höfðu fengið ágætis færi þegar Manchester City fékk aukaspyrnu nokkuð nálægt vítateig heimaliðsins. Kevin De Bruyne tók spyrnuna en Alisson greip örugglega í marki Liverpool. Hann hugsaði sig um í nokkur sekúndubrot áður en hann þrumaði boltanum fram á Salah sem sneri João Cancelo af sér og óð að marki.

Salah hélt ró sinni og skoraði af miklu öryggi þó Ederson hafi komið askvaðandi úr marki sínu. Þakið svo gott sem rifnaði af Anfield í fagnaðarlátunum enda staðan orðin 1-0 Liverpool í vil.

Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var Jürgen Norbert Klopp þjálfari Liverpool, rekinn upp í stúku og í kjölfarið virtist ætla að sjóða upp úr inn á vellinum. Leikmenn róuðust fljótt og Man City hélt áfram að reyna jafna leikinn.

Það tókst ekki og fyrsta tap Man City á tímabilinu staðreynd. Þá var þetta annar leikurinn í röð sem liðinu mistekst að skora en City gerði markalaust jafntefli við FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu á dögunum.

Sigurinn lyftir Liverpool upp í 8. sæti með 13 stig að loknum níu leikjum á meðan Man City er sem fyrr í 2. sæti með 23 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira