Arsenal lagði Liverpool að velli í fimm marka leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigurmarkið í höfn.
Sigurmarkið í höfn. vísir/Getty

Fátt fær stöðvað Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um þessar mundir og Liverpool fékk að kenna á sóknarkrafti Skyttnanna á Emirates leikvangnum í Lundúnum í dag.

Ekki var liðin ein mínúta af leiknum þegar heimamenn höfðu náð forystunni. Hinn brasilíski Gabriel Martinelli batt þá enda á góða skyndisókn Arsenal eftir stoðsendingu frá Martin Ödegaard.

Liverpool tókst að vinna sig inn í leikinn eftir þessa vondu byrjun og Úrugvæinn Darwin Nunez jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik. Kólumbíumaðurinn Luis Diaz gerði virkilega vel í að leggja upp markið.

Engu að síður fóru heimamenn með forystu í leikhléið með því að skora í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Martinelli fór þá afar illa með Jordan Henderson og Trent Alexander-Arnold áður en hann lagði boltann fyrir fætur Bukayo Saka sem kom boltanum í netið.

Roberto Firmino kom inná sem varamaður hjá Liverpool í fyrri hálfleik og hann jafnaði metin að nýju fyrir gestina snemma í síðari hálfleik eftir laglega sendingu Diogo Jota.

Léttar stympingar.vísir/Getty

Þegar tæpur stundarfjórðungur lifði leiks fengu heimamenn vítaspyrnu, fyrir litlar sakir að mati gestanna en Thiago Alcantara var dæmdur brotlegur fyrir brot á Gabriel Jesus innan vítateigs. Þrátt fyrir kröftug mótmæli Liverpool steig Saka á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Fleiri urðu mörkin ekki í þessum bráðfjöruga stórleik og lyfti Arsenal sér þar með í toppsætið þar sem liðið hefur 24 stig. Liverpool hins vegar með tíu stig í 10.sæti en hefur þó leikið einum leik minna en Arsenal.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira