Erlent

Bein útsending: Geimfarar sendir af stað til geimstöðvarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaug og geimfar SpaceX á skotpalli í Flórída.
Eldflaug og geimfar SpaceX á skotpalli í Flórída. AP/NASA/Joel Kowsky

Bandaríska fyrirtækið SpaceX mun skjóta fjórum geimförum af stað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í dag. Geimförunum verður skotið á loft um borð í Dragon-geimfari SpaceX með Falcon-9 eldflaug.

Uppfært: Geimskotið heppnaðist vel og eru geimfararnir á leið til geimstöðvarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem rússneskur geimfari fær far til geimstöðvarinnar um borð í geimfari SpaceX og verða þau um borð í geimstöðinni í um hálft ár. Lending eldflaugarinnar heppnaðist einnig.

Geimskot þetta kallast SpaceX Crew-5 og fara þau til geimstöðvarinnar í sama geimfari og áhöfn Crew-3. Eldflaugin sem ber þau út í geim á svo að lenda aftur á drónaskipinu Just Read the Instructions sem er statt undan ströndum Flórída, þar sem geimförunum verður skotið á loft.

Eins og nafnið gefur til kynna er þetta í fimmta sinn sem SpaceX skýtur geimförum til geimstöðvarinnar.

Geimfararnir eru að þessu sinni þau Nicole Mann, sem leiðir hópinn, og Josh Cassada frá Bandaríkjunum, Koichi Wakat frá Japan og Anna Kikina frá Rússlandi. Um borð í geimstöðinni eiga þau að leggja stund á vísindarannsóknir og viðhaldsvinnu.

Nicole Mann, Anna Kikina, Josh Cassada og Koichi Wakata.AP/John Raoux

Frekari upplýsingar um geimstöðina og hverjir eru þar um borð má finna hér á vef NASA.

Til stendur að skjóta geimfarinu á loft klukkan fjögur í dag, að íslenskum tíma, og eru litlar sem engar líkur á því að veður muni koma í veg fyrir geimskotið.

Gangi ekki eftir að skjóta geimfarinu á loft í dag, stendur til að reyna aftur á morgun.

Fylgjast má geimskotinu í beinni útsendingu hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.