Erlent

Sendiherra segir Musk að fara norður og niður

Kjartan Kjartansson skrifar
Upp á síðkastið hefur Elon Musk helst vakið athygli fyrir að viðra misvelígrundaðar skoðanir sínar á samfélagsmiðlum.
Upp á síðkastið hefur Elon Musk helst vakið athygli fyrir að viðra misvelígrundaðar skoðanir sínar á samfélagsmiðlum. Vísir/EPA

Úkraínski sendiherrann í Þýskalandi vandaði Elon Musk, auðkýfingnum sem hefur haslað sér völl sem nettröll, ekki kveðjurnar eftir að sá síðarnefndi viðraði hugmynd um forsendur friðar á milli Rússlands og Úkraínu. Bað sendiherrann Musk um að fara norður og niður.

Musk, eigandi rafbílaframleiðandands Tesla og geimferðafyrirtækisins SpaceX, hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum með umdeildum skoðunum og vafasömum fullyrðingum undanfarin misseri. Tillaga sem um frið á milli Úkraínu og Rússlands sem hann tísti í dag hefði getað komið frá Kreml.

Lagði Musk til að ólöglegar atkvæðagreiðslur sem leppstjórar Rússa í Úkraínu héldu um innlimum fjögurra úkraínskra héraða á dögunum yrðu endurteknar undir umsjón Sameinuðu þjóðanna. Rússneski herinn yfirgæfi héruðin ef það væri vilji íbúanna þar.

Rússar fengju Krímskaga, sem þeir innlimuðu ólöglega árið 2014, varanlega en svæðinu væri tryggt aðgang að drykkjarvatni. Þá lagði hann til að Úkraína yrði hlutlaus, það er að segja, sæktist ekki eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu eða Evrópusambandinu.

Hélt Musk því fram að þetta yrði hvort eð er mjög líklega lyktir stríðsins, aðeins væri spurning hversu margir létu lífið áður. Einnig væri mögulegt, þótt ólíklegt væri, að stríðið leiddi til kjarnorkustríðs.

Tillögurnar fóru öfugt ofan í fulltrúa Úkraínu, þar á meðal Andríj Melnyk, sendiherra landsins í Þýskalandi.

„Farðu norður og niður er diplómatíska svarið mitt til þín, @elonmusk,“ tísti sendiherrann á móti.

Mykhailo Podoljak, ráðgjafi Volodýmýrs Selenskíj Úkraínuforseta, setti fram sínar eigin tillögur sem honum voru meira að skapi. Í fyrsta lagi frelsaði Úkraína landsvæði sín, þar á meðal Krímskaga, í öðru lagi yrði Rússland gert hernaðarlega óvirkt og afkjarnavopnað til að það gæti ekki ógnað öðrum ríkjum og í þriðja lagi yrðu stríðsglæpamenn dregnir fyrir alþjóðadómstóla.


Tengdar fréttir

Musk grínaðist með að kaupa Manchester United

Elon Musk, eigandi Tesla og SpaceX, sagði á Twitter-síðu sinni að hann væri við það að festa kaup á enska knattspyrnufélaginu Manchester United. Skömmu síðar dró hann grínið hins vegar til baka.

Musk þvertekur fyrir ásakanirnar

Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, neitar því að hafa nokkurn tímann átt í kynferðislegu sambandi með Nicole Shanahan, eiginkonu stofnanda Google, Sergey Brin.

Dóttir Musk vill rjúfa öll tengsl við hann

Átján ára gömul transdóttir auðkýfingsins Elons Musk hefur óskað eftir að láta breyta nafni sínu, ekki aðeins til að endurspegla kynvitund sína heldur einnig til að slíta öll tengsl við föður sinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×