Íslenski boltinn

Vanda viðurkennir að hafa rætt við Heimi í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir kannaði möguleikann á að fá Heimi Hallgrímsson aftur til starfa fyrir KSÍ í sumar.
Vanda Sigurgeirsdóttir kannaði möguleikann á að fá Heimi Hallgrímsson aftur til starfa fyrir KSÍ í sumar. vísir/vilhelm

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, viðurkennir að hafa rætt við Heimi Hallgrímsson í sumar.

Sögusagnir þess efnis að Vanda hafi talað við Heimi um möguleikann á að taka aftur við íslenska karlalandsliðinu hafa verið nokkuð háværar. Hlaðvarpsþátturinn Þungavigtin greindi fyrst frá þessum sögusögnum í upphafi vikunnar.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segist Vanda hafa rætt við Heimi. „Það er rétt að við Heimir töluðum saman í sumar. Ég ætla að öðru leyti ekki að fara út í það sem okkur fór á milli,“ sagði Vanda í svari sínu við fyrirspurninni.

Hún kveðst þó ánægð með Arnar Þór Viðarsson, þjálfara landsliðsins. „Það er stígandi í leikjunum og frammistöðunum. Við sjáum það til dæmis í þeirri staðreynd að liðið er taplaust í sex leikjum, og tölfræðin sem kemur úr greiningu á leikjunum styður það,“ sagði Vanda.

Ísland vann 1-0 sigur á Venesúela í vináttulandsleik og gerði 1-1 jafntefli við Albaníu þrátt fyrir að vera manni færri bróðurpart leiks liðanna í Þjóðadeildinni í nýafstaðinni landsleikjahrinu. Íslendingar gerðu jafntefli í öllum fjórum leikjum sínum í Þjóðadeildinni.

Heimir starfaði við þjálfun karlalandsliðsins á árunum 2011-18. Fyrst var hann aðstoðarmaður Lars Lagerbäck, svo meðþjálfari og loks einn aðalþjálfari. Undir hans stjórn komst Ísland á tvö stórmót, EM 2016 og HM 2018.

Heimir er nýtekinn við landsliði Jamaíku og stýrði því í fyrsta sinn í 3-0 tapi fyrir Argentínu í vináttulandsleik fyrr í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×