Innlent

Stór­skota­liðið í Co­vid kemur saman á ný til að heiðra Þór­ólf

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Alma Möller landlæknir stýrir málþinginu, sem er til heiðurs Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.
Alma Möller landlæknir stýrir málþinginu, sem er til heiðurs Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Vísir/Vilhelm

Þríeykið verður sameinað á ný á málþingi til heiðurs Þórólfs Guðnasonar, fyrrverandi sóttvarnalæknis, í vikunni. Heilbrigðisráðherra, forstjóri Landspítala, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og nýr sóttvarnalæknir verða einnig með erindi þar sem litið verður yfir farinn veg.

Embætti landlæknis stendur fyrir málþinginu Betur vinnur vit en strit – gildi vísinda og nýsköpunar í heimsfaraldri en málþingið fer fram á föstudag í sal Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu. Málþingið er til heiðurs Þórólfs Guðnasonar en hann hætti sem sóttvarnalæknir í lok ágúst.

Fréttastofa náði tali af Þórólfi á síðasta vinnudegi hans en viðtalið má finna í spilaranum hér fyrir neðan. 

Gestalistinn er ekki af verri endanum en þar má meðal annars finna þríeykið sem stóð vörðinn í heimsfaraldrinum, Alma Möller landlæknir er fundastjóri og Víðir Reynisson, sem var yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, er með erindi, þó hann beri reyndar titilinn sviðsstjóri almannavarna í dag.

Þá sér Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um að setja málþingið, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fjallar um mannlegan fjölbreytileika, og prófessorarnir Thor Aspelund og Unnur Anna Valdimarsdóttir fjalla um vöktun lýðheilsu og notkun spálíkana. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, fjallar um viðbrögð spítalans, vísindi og nýsköpun, og Jón Steinar Jónsson, yfirlæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, verður sömuleiðis með erindi.

Sjálfur mun Þórólfur líta yfir farinn veg en Guðrún Aspelund, nýr sóttvarnalæknir, fer yfir það hver maðurinn er í raun.


Tengdar fréttir

Þórólfur Guðnason segir upp störfum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt upp störfum frá og með 1. september næstkomandi. Hann segir ástæður uppsagnarinnar bæði persónulegar og faglegar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×