Enski boltinn

Son: Þrjú heppnismörk og ég er mjög stoltur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heung-Min Son vaknaði heldur betur til lífsins í dag.
Heung-Min Son vaknaði heldur betur til lífsins í dag. James Williamson - AMA/Getty Images

Suður-kóreski knattspyrnumaðurinn Heung-Min Son komst loksins á blað í ensku úrvalsdeildinni er hann skoraði þrennu í 6-2 sigri Tottenham gegn Leicester í dag.

Son var markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á seinasta tímabili ásamt Liverpoolmanninum Mohamed Salah með 23 mörk. Hann hafði hins vegar ekki skorað eitt einasta mark í fyrstu sex umferðum deildarinnar á þessu tímabili og af þeim sökum missti hann byrjunarliðssæti sitt.

Son kom inn af varamannabekknum þegar um hálftími var til leiksloka í dag. Hann gerði sér lítið fyrir og setti þrennu fyrir Tottenham og gulltryggði liðinu um leið öruggan 6-2 sigur.

„Þetta er mögnuð tilfinning. Sérstaklega af því að leikurinn var ekki búinn, ég kom inn á í stöðunni 3-2. Þetta var erfiður leikur og það var frábært að ná að vinna,“ sagði Son eftir leikinn.

Eins og áður segir hefur Son átt í miklum erfiðleikum með að finna netmöskvana á tímabilinu og hann segir að það hafi verið gríðarlegur léttir þegar hann sá boltann syngja í netinu í fyrsta sinn á tímabilinu.

„Ég ætlaði ekki að trúa þessu. Allur pirringurinn, öll vonbrigðin og allar neikvæðu hugsanirnar hurfu bara. Ég gat ekki hreyft mig og stóð þess vegna bara kyrr í stað þess að fagna. Þetta gladdi mig mjög mikið.“

„Fótboltinn getur verið svo klikkaður stundum. Boltinn vildi bara ekki fara inn í seinustu leikjum, en í dag gerðist það þrisvar. Þetta breytir öllu og ég hef lært svo mikið á þessu erfiða tímabili. Ég þarf að leggja hart að mér í hvert einasta skipti til að fá tækifærið.“

„Þetta voru þrjú heppnismörk og ég er mjög stoltur,“ sagði Son að lokum, eðlilega í skýjunum eftir leikinn.


Tengdar fréttir

Son setti þrennu í stórsigri Tottenham

Kóreumaðurinn Heung-Min Son spilaði rétt rúman hálftíma er Tottenham tók á móti Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir að hafa ekki skorað eitt einasta mark á tímabilinu hlóð Son í þrennu af bekknum og Tottenham vann öruggan 6-2 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×