Son setti þrennu í stórsigri Tottenham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heung-Min Son skoraði þrennu fyrir Tottenham í dag.
Heung-Min Son skoraði þrennu fyrir Tottenham í dag. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Kóreumaðurinn Heung-Min Son spilaði rétt rúman hálftíma er Tottenham tók á móti Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir að hafa ekki skorað eitt einasta mark á tímabilinu hlóð Son í þrennu af bekknum og Tottenham vann öruggan 6-2 sigur.

Leikurinn var fjörugur frá upphafi til enda og eftir rétt um fimm mínútna leik fengu gestirnir í Leicester vítaspyrnu þegar Davinson Sanchez gerðist brotlegur innan vítateigs. Youri Tielemans steig á punktinn, en franski landsliðsmarkvörðurinn Hugo Lloris sá við honum.

Við nánari skoðun kom þó í ljós að Lloris var farinn af línunni þegar spyrnan var tekin og því þurfti að endurtaka hana. Í þetta skipti hitti Tielemans boltann betur og hann söng í netinu, staðan orðin 0-1.

Gestirnir gátu þó ekki leyft sér að fagna lengi því heimamenn jöfnuðu metin þremur mínútum síðar þegar Harry Kane skallaði fyrirgjöf Dejan Kulusevski í netið og staðan orðin 1-1.

Eftir rétt rúmlega tuttugu mínútna leik tóku heimamenn svo forystuna þegar Eric Dier skallaði hornspyrnu Ivan Perisic í netið, en James Maddison jafnaði metin fyrir gestina stuttu fyrir hálfleikshléið með stórglæsilegu marki og staðan því 2-2 þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn voru ekkert að bíða með hlutina í síðari hálfleik og Rodrigo Bentancur kom liðinu yfir á nýjan leik með marki á 47. mínútu eftir klaufagang í vörn gestanna.

Heung-Min Son kom svo inn af varamannabekknum á 59. mínútu leiksins og það má með sanni segja að hann hafi lagt sitt af mörkum. Eftir erfiða byrjun á tímabilinu þar sem þessi markahæsti leikmaður seinasta tímabils hafði ekki enn skorað kom Son heimamönnum í Tottenham í tveggja marka forystu í fyrsta skipti í leiknum með glæsilegu marki á 73. mínútu.

Hann bætti öðru marki sínu við á 84. mínútu og fullkomnaði svo þrennu sína þremur mínútum síðar og gulltryggði um leið 6-2 sigur Tottenham.

Tottenham situr nú í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 17 stig eftir sjö leiki, líkt og topplið Manchester City, en með verri markatölu. Leicester situr hins vegar enn sem fastast á botni deildarinnar með aðeins eitt stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira