Elizabeth Folcarelli, yfirmaður góðgerðarsamtaka og neyðarskýlis í Martha‘s Vineyard, sagði AP fréttaveitunni að 48 farandmenn og konur frá Venesúela hefðu mætt óvænt á skrifstofu hennar og með bæklinga sem vísuðu á samtök hennar.
„Þeim var sagt að þeirra biðu störf og húsnæði,“ sagði Folcarelli.
Hún sagði óvænta komu fólksins hafa tekið á fyrir hennar smáu starfsemi en samfélagið hafi komið saman og aðstoðað fólkið eftir bestu getu. Þau hafi fengið húsnæði, mat, læknisaðstoð og aðstoð varðandi hvaða valkosti þau standa frammi fyrir.
DeSantis hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla vestanhafs en Washington Post segir frá því að á fjáröflun í síðustu viku hafi ríkisstjórinn gantast með það að ríkisþing Flórída hefði sett tólf milljónir dala í sjóð sem nota ætti til að flytja farandfólk og innflytjendur. Repúblikanar í Bandaríkjunum vilja með þessu mótmæla landamærastefnu Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.
„Ég er með þessa peninga. Ég vil hjálpa. Kannski förum við til Texas og hjálpum. Kannski sendum við þau til Chicago, Hollywood, Martha‘s Vineyard. Hver veit?“ sagði DeSantis við fagnaðarlæti þeirra sem voru á fundinum.

Eins og áður hafa ríkisstjórar Texas og Arizona ítrekað sent fólk með rútum til ríkja eins og Kaliforníu og New York.
Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, sendi frá sér tilkynningu í gær að ríkisstjórn Biden hefði hunsað það neyðarástand sem ríkt hafi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó sem hafi ógnað almenningi í Texas. Abbott hefur varið gífurlegu opinberu fjármagni í flutningana og það að gera innflytjendamál að pólitísku deilumáli fyrir komandi þingkosningar í nóvember.
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, hefur beðið dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna um að rannsaka hvort fólksflutningar Repúblikana í pólitískum tilgangi brjóti ekki lög.
„Að flytja fjölskyldur, og þar á meðal börn, milli ríkja á fölskum forsendum er forkastanlegt, en það er einnig mögulega ólöglegt,“ sagði Newsom í bréfi til ráðuneytisins, sem hann birti einnig á Twitter.
Newsom sagði að einhverjir af þeim sem hefðu verið sendir til Martha‘s Vineyard hefðu staðið í þeirri trú að verið væri að senda þau til Boston og að þeim hefði verið sagt að þar myndu þau fá atvinnuleyfi.
What @GovRonDeSantis and @GregAbbott_TX are doing isn t clever, it s cruel.
— Gavin Newsom (@GavinNewsom) September 15, 2022
I m formally requesting the DOJ begin an immediate investigation into these inhumane efforts to use kids as political pawns. pic.twitter.com/x2sBa06nSw