Erlent

Pútín og Xi ávarpa leiðtogafund í Úsbekistan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping leiðtogi Kína funduðu í gær í fyrsta sinn í persónu frá innrás Rússa í Úkraínu.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping leiðtogi Kína funduðu í gær í fyrsta sinn í persónu frá innrás Rússa í Úkraínu. Getty/Kreml

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping leiðtogi Kína munu ávarpa leiðtogafund, sem fer fram í Úsbekistan í dag. 

Pútín og Xi munu sækja fund á vegum Sjanghæ samstarfssamtakanna (SCO), evrasískra samtaka sem ríkin tvö hafa leitt frá því þau voru stofnuð. Samtökin skipa fjöldi stórra ríkja, sem ekki teljast til Vesturvelda, þar á meðal Indland, Íran og Pakistan. 

Pútín sagði á fundi með Xi í gær að hann skildi vel að kínverski leiðtoginn hefði áhyggjur af stöðunni í Úkraínu en hrósaði í leiðinni Xi fyrir afstöðu hans gagnvart átökunum. Að sögn Pútíns einkennist afstaða Xi af „jafnvægi.“

Pútín og Xi funduðu í gær í fyrsta sinn í persónu eftir að stríðið í Úkraínu hófst. Í tilkynningu frá rússneskum stjórnvöldum að loknum fundi sagði að afstaða ríkjanna tveggja til alþjóðamála væri sú nákvæmlega sama, ríkin deildu ekki um einn einasta hlut. Þá muni ríkin halda áfram að stíga í takt, þar á meðal á komandi fundi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. 

Í tilkynningu frá kínverskum stjórnvöldum að loknum fundi var ekkert minnst á stöðuna í Úkraínu en kínversk stjórnvöld hafa lítið viljað tjá sig um hana. Í þau skipti sem kínversk stjórnvöld hafa minnst á stríðið hafa þau kallað það innrás, en aldrei stríð. 

Auk leiðtogafundarins mun Pútín funda með leiðtogum Aserbaídsjan, Indlands og Tyrklands í dag. 


Tengdar fréttir

Xi og Pútín funda um innrásina í Úkraínu

Xi Jinping, forseti Kína, hóf í dag fyrsta ferðalag sitt frá því Covid-faraldurinn hófst, með því að fara til Kasakstan. Hann mun svo funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og öðrum leiðtogum Mið-Asíu á komandi dögum í Úsbekistan.

Segir heiminum stafa ógn af við­skipta­þvingunum Vestur­landa

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að viðskiptaþvinganir Vesturlanda gegn Rússum vegna stríðsins í Úkraínu séu skammsýnar og að heiminum öllum stafi ógn af þeim – heimi sem í síauknum mæli beini sjónum sínum að Asíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×