Enski boltinn

Foster leggur hanskana á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ben Foster hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna.
Ben Foster hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna. Mike Egerton/Getty Images

Markvörðurinn Ben Foster hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna. Hann staðfesti það í hlaðvarpi sínu nú fyrir stuttu. Ekki er langt síðan Newcastle United reyndi að falast eftir kröftum markvarðarins en hann ákvað að segja pass og hefur nú lagt hanskana á hilluna.

Hinn 39 ára gamli Foster hefur komið víða við á ferli sínum en hann lék síðast með Watford í ensku úrvalsdeildinni. Þar áður hafði hann leikið með Manchester United, Birmingham City og West Bromwich Albion. Foster spilaði alls 390 leiki í ensku úrvalsdeildinni á ferlinum og þá lék hann átta A-landsleiki fyrir Englands hönd.

Hann vann enska deildarbikarinn þrjú tímabil í röð, fyrstu tvö með Man United og það þriðja með Birmingham City. Hann fór mikinn er Man Utd lagði Tottenham Hotspur í úrslitum 2009, ári síðar sat hann á bekknum þegar Man Utd vann aftur. Árið 2011 fór Foster svo hamförum þegar Birmingham vann óvæntan sigur á Arsenal.

Foster hafði íhugað að halda áfram að spila eftir að samningur hans við Watford rann út en Foster vildi aðeins semja við lið nálægt heimili sínu. Það hefði tekið hann fjóra tíma að fara til Newcastle og hann var ekki tilbúinn að flytja alla leiðina til Norður-Englands.

Það var þá og þegar, segir hann í hlaðvarpi sínu, að hann áttaði sig á því að best væri að leggja hanskana á hilluna og einbeita sér að öðrum hlutum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.