Erlent

„Við erum með heimskustu ríkisstjórn í Evrópu“

Snorri Másson skrifar

Þingmaður þýska vinstriflokksins, Die Linke, fór hörðum orðum um þýsku ríkisstjórnina í harla umdeildri ræðu sem hún flutti í þýska þinginu í vikunni. Þar fjallaði hún um nauðsyn þess að halda áfram viðskiptum við Rússa þrátt fyrir stríðið - og málflutningur hennar hefur síðan leitt til þess að fjöldi flokksmanna hefur sagt sig úr flokki hennar.

Hlýða má á ræðuna í Íslandi í dag hér að ofan. Hún hefst á fimmtu mínútu og er textuð. Í kjölfarið er ræðan sett í samhengi við yfirvofandi stjórnmálakreppu í Evrópu.

„Við erum virkilega með heimskustu ríkisstjórn í Evrópu ef maður skoðar málið,“ sagði þingmaðurinn, Sarah Wagenknecht.

Sarah Wagenknecht hefur lengi verið umdeild í þýskum stjórnmálum og nú er hún komin í miklar útistöður við formann síns eigin flokks.Michael Kappeler/picture alliance via Getty Images

Wagenknecht hélt áfram: „Stærsti vandi þessarar ríkisstjórnar eru hrokafullar hugmyndir hennar um að ráðast í fordæmalausar efnahagslegar stríðsaðgerðir gegn mikilvægasta orkubirgi Þýskalands.

Jú auðvitað er stríðið í Úkraínu glæpur, auðvitað er stríðið í Úkraínu glæpur. En að ímynda sér að við séum að refsa Pútín sérstaklega með því að rústa þýska iðnaðinum og steypa milljónum þýskra fjölskyldna í fátækt á meðan Gazprom hagnast um metupphæðir, hvers konar vitleysa er það?“

Wagenknecht hefur þótt tala of vinsamlega um áframhaldandi samskipti við Rússa þrátt fyrir innrásina, enda sé rússneskt gas nauðsynlegt þýsku efnahagskerfi. Slíkur málflutningur fellur í grýttan jarðveg, en hann er þó síst aðeins að finna innan Die Linke. Stjórnmálamenn úr röðum kristilegra demókrata hafa einnig talað á þennan veg og úr röðum AfD.

Eftir að Wagenknecht lét svona um mælt í þinginu hefur formaður flokks hennar sagt þetta framferði skaða flokkinn. Hún bregst hin versta við í samtali við ZEIT ONLINE og segir þar um formann sinn: „Flokksmaður sem ruglar saman hliðarveruleika Twitter-búbblunnar sinnar og stemningunni á meðal almennings er ekki í réttu hlutverki.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×