Enski boltinn

Úkraínski Neymar mígur utan í Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mykhaylo Mudryk stingur Mohamed Simakan af í leik RB Leipzig og Shakhtar Donetsk á þriðjudaginn.
Mykhaylo Mudryk stingur Mohamed Simakan af í leik RB Leipzig og Shakhtar Donetsk á þriðjudaginn. getty/Cathrin Mueller

Úkraínski kantmaðurinn Mykhaylo Mudryk, sem sló í gegn í sigri Shakhtar Donetsk á RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn, hefur gefið Arsenal hressilega undir fótinn.

Hinn 21 árs Mudryk skoraði eitt mark og lagði upp tvö í 1-4 sigri Shakhtar í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann þykir gríðarlega spennandi leikmaður og var meðal annars orðaður við Everton og Arsenal í sumar. Og miðað við ummæli hans í viðtali við CBS Sports er hann meira en klár í að spila við Arsenal.

„Mig, eins og alla held ég, dreymir um að spila í ensku úrvalsdeildinni. Arsenal er með mjög gott lið með mjög góðan þjálfara. Ég er hrifinn af leikstíl liðsins. Og já, það væri erfitt fyrir mig að segja nei við þá en það er ekki bara mín ákvörðun,“ sagði Mudryk.

„Við sjáum til í vetur. Það var talað mikið um félagaskipti og að þau hafi ekki gengið í gegn og hverjir vilja fá mig en þetta er eðlilegt núna. Ég er í Shakhtar og vil spila í þessu liði.“

Mudryk hefur verið kallaður hinn úkraínski Neymar. Honum vill þó frekar vera líkt við annan leikmann; króatíska miðjumanninn Luka Modric.

Mudryk er uppalinn hjá Shakhtar en var lánaður til Arsenal Kiev og Desna Chernihiv áður en hann festi sig í sessi hjá liðinu. Hann hefur leikið fimm landsleiki fyrir Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×