Erlent

Dæmdur fimmtíu og níu sinnum á rúmum tuttugu árum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rhonda Blackmore, aðstoðarlögreglustjórinn í Saskatchewan, á blaðamannafundi um helgina. Damien Sanderson fannst látinn í gær en Myles gengur enn laus.
Rhonda Blackmore, aðstoðarlögreglustjórinn í Saskatchewan, á blaðamannafundi um helgina. Damien Sanderson fannst látinn í gær en Myles gengur enn laus. AP/Michael Bell

Myles Sanderson, annar bræðranna sem grunaðir eru um mannskæðar stunguárásir í Kanada, á sér langan sakaferil að baki og hafði margsinnis verið dæmdur fyrir ofbeldi. Þá hafði hann átt í vandræðum með neyslu áfengis og fíkniefni frá unga aldri.

Honum var sleppt á reynslulausn í ágúst í fyrra og stóð til að handtaka hann á nýjan leik í nóvember. Sú ákvörðun var þó felld niður í febrúar og komst opinber nefnd að þeirri niðurstöðu að ekki stafaði ógn af honum.

Damien Sanderson (31), bróðir Myles (30), fannst látinn í gær. Ekki hefur verið gefið upp hvernig hann dó en lögreglan hefur sagt að hann hafi verið með áverka sem hann hafi ekki veitt sér sjálfur.

Tíu eru látnir og átján særðir eftir árásir þeirra bræðra í Saskatchewan í Kanada.

Í frétt CBC News segir að Myles Sanderson hafi verið dæmdur 59 sinnum á rúmur tveimur áratugum. Þar á meðal fyrir líkamsárásir, árás með vopni, hótanir, árás á lögregluþjón og rán. Þá hefur hann margsinnis verið dæmdur fyrir að rjúfa skilorð og brjóta reglur reynslulausnar og hefur honum verið bannað að eiga skotvopn vegna þessara dóma.

Dómsskjöl í Kanada sýna að Myles hefur lengi átt í vandræðum með neyslu áfengis og fíkniefna en hann var byrjaður að neyta kókaíns þegar hann var fjórtán ára gamall. Í skjali sem snýr að reynslulausn hans segir að regluleg neysla hans á kókaíni, maríjúana og áfengi hafi oft leitt til þess að hann missti stjórn á skapi sínum.

Í einu slíku atviki frá 2017 ruddist Myles inn til fyrrverandi kærustu sinnar þar sem hann kýldi í gegnum hurð á baðherbergi þar sem börn voru að fela sig fyrir honum. Hann kastaði svo múrstein í framrúðu bíls konunnar. Nokkrum dögum síðar hótaði hann að myrða starfsmenn í verslun sem hann sótti og hótaði hann einnig að brenna hús foreldra sinna.

Árið 2018 stakk hann tvo menn með gaffli og rotaði annan en samkvæmt kanadísk miðlinum Global News voru mennirnir við drykkju heima hjá Myles. Sumarið 2018 sparkaði hann svo ítrekað í andlit lögregluþjóns sem var að reyna að handtaka hann.

Sleppt í ágúst í fyrra

Myles var sleppt úr fangelsi á reynslulausn í ágúst í fyrra. Í nóvember var sú reynslulausn þó felld niður þar sem Myles hafði brotið þær reglur sem honum hafði verðið settar. Þá var hann sagður vera edrú, kominn með vinnu og í meðferð hjá ráðgjafa. Hann hafði hins vegar brotið reglurnar með því að flytja inn til fyrrverandi kærustu sinnar.

Sú ákvörðun var þá afturkölluð í febrúar. Þá staðhæfði sérstök nefnd sem fjallar um málefni fanga á reynslulausn að það stafaði ekki ógn af Myles Sanderson og það að hafa hann á reynslulausn myndi hjálpa til við að gera hann að „löghlýðnum borgara“.

CBC segir þó að lýst hafi verið eftir Myles í maí og lögreglan hefur staðfest að það er vegna þess að hann hafði hætt að mæta á fundi með skilorðsfulltrúa sínum. Hann hefur þó gengið laus í allt sumar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×