Enski boltinn

Rekinn af velli fyrir að skvetta úr skinn­sokknum í lim­gerði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Connor Maseko, markvörður Blackfield & Langley FC fékk skrautlegt rautt spjald á dögunum.
Connor Maseko, markvörður Blackfield & Langley FC fékk skrautlegt rautt spjald á dögunum. Twitter@Mallet_AFC

Vægast sagt stórundarlegt atvik átti sér stað í forkeppni FA bikarkeppninnar á Englandi. Connor Maseko, markvörður Blackfield & Langley, fékk nefnilega rautt spjald fyrir að létta af sér, pissa, utan í limgerði fyrir utan völlinn er boltinn hafði farið aftur fyrir.

Á hverju ári verða til nýjar sögur í tengslum við FA bikarkeppnina. Oftast er um að ræða sögur í anda Öskubusku eða Davíðs og Golíats þar sem lítilmagninn nær eftirtektarverðum árangri.

Inn á milli koma svo sögur af markvörðum sem borða bökur á bekknum eða láta reka sig út af fyrir að þurfa skvetta af sér hlandi í miðjum leik.

Það síðara á við hér en um liðna helgi gerðu Blackfield & Langley markalaust jafntefli gegn Shepton Mallet. Fyrrnefnda liðið leikur í 9. efstu deild og eflaust rýmri reglur þar er leikur fer fram en þegar um er að ræða þá elstu og virtustu, FA bikarkeppnina.

Eftir að boltinn fór aftur fyrir og Connor Maseko fór að sækja hann til að taka markspyrnu þá ákvað markvörðurinn að nýta tækifærið og létta aðeins á sér. Hann fór því upp að limgerði sem var við völlinn og pissaði þar.

Leikmenn Shepton Mallet tóku eftir þessu og bentu dómaranum á hvað væri að eiga sér stað. Téður dómari rak Maseko í kjölfarið út af, leikmönnum og þjálfarateymi Blackfield til mikillar undrunar.

„Hann passaði sig að það sæist ekkert, hann var inn í limgerðinu. Þegar náttúran kallar þá þarf maður stundum bara að fara. Mér dauðbrá, okkur var öllum brugðið yfir ákvörðun dómarans,“ sagði Conor McCarthy, annar af þjálfurum Blackfield, í viðtali við The Guardian að leik loknum.

Þar sem leiknum lauk með markalausu jafntefli þurfa liðin að mætast aftur og má reikna með að allir leikmenn Blackfield verði látnir fara á klósettið áður en leikurinn verður flautaður á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×