Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram - KA 2-2 | Meistari Jakob kom KA til bjargar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob Snær Árnason skorar jöfnunarmark KA.
Jakob Snær Árnason skorar jöfnunarmark KA. vísir/hulda margrét

Þökk sé tveimur mörkum í uppbótartíma fór KA úr Úlfarsárdalnum með eitt stig eftir 2-2 jafntefli við Fram í 20. umferð Bestu deildar karla í kvöld.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Frederico Bello Saraiva tvívegis fyrir Fram eftir sendingar frá Alberti Hafsteinssyni. Ekkert benti til annars en heimamenn myndu vinna leikinn en Gabor Dobrovoljic kastaði líflínu til sinna manna með skallamarki á fyrstu mínútu í uppbótartíma. Tveimur mínútum síðar skoraði Jakob Snær Árnason jöfnunarmark KA með skoti í stöng og inn.

KA-menn náðu því að bjarga andlitinu og forðast þriðja tapið í röð. KA er í 2. sæti deildarinnar með 37 stig, átta stigum á eftir Breiðabliki sem á leik til góða.

Frammarar voru að vonum svekktir í leikslok.vísir/hulda margrét

Með sigrinum, sem allt stefndi í, hefði Fram setti mikla pressu á KR í baráttunni um 6. sæti deildarinnar. Frammarar eru áfram í 7. sætinu, nú með 24 stig, þremur stigum á eftir KR-ingum sem eru í sætinu fyrir ofan. Aðeins tvær umferðir eru þar til deildinni verður tvískipt og Frammarar eiga enn ágætis möguleika á að vera í efri hlutanum, eitthvað sem enginn átti von á fyrir tímabilið.

Þeir sem hafa fylgst með Bestu deildinni í sumar eru góðu vanir enda hafa flestir leikirnir verið uppfullir af mörkum og fjöri. Fyrri hálfleikurinn var ekki í þeim anda. Mikið jafnræði var með liðunum sem gáfu svo til engin færi á sér. En það átti eftir að breytast.

Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, gerði eina breytingu í hálfleik, setti Albert inn á fyrir Indriða Áka Þorláksson, og það reyndist frábær ákvörðun. Skagamaðurinn var ekki lengi að láta að sér kveða. Á 55. mínútu sendi hann fyrir á Fred sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Albert Hafsteinsson lagði upp bæði mörk Fram fyrir Frederico Bello Saraiva.vísir/hulda margrét

Sama uppskrift skilaði sömu niðurstöðu á 70. mínútu. Albert sendi þá fyrir frá hægri á Fred sem skoraði með skoti af stuttu færi.

Tveimur mínútum síðar slapp Jakob í gegnum vörn Fram en skaut beint á Ólaf Íshólm Ólafsson. Svo virtist sem þar hafi möguleiki KA á að hleypa spennu í leikinn farið í súginn enda voru þeir gulu og bláu afar bitlausir og vörn Fram stóð vaktina vel. Vert að minnast á frammistöðu hægri bakvarðarins Alex Freys Elíssonar sem hélt Nökkva Þey Þórisson, markahæsta leikmanni deildarinnar, svo gott sem algjörlega í skefjum.

Hallgrímur Jónasson, sem stýrði KA í fjarveru Arnars Grétarssonar sem er enn í leikbanni, notaði allar fimm skiptingar sínar í seinni hálfleik og varamennirnir drógu sitt lið að landi.

Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar framan í Alex Frey Elísson sem hafði góðar gætur á honum í kvöld.vísir/hulda margrét

Á fyrstu mínútu uppbótartíma tók einn varamannanna, Sveinn Margeir Hauksson, hornspyrnu sem fór á kollinn á Gabor sem skoraði.

KA hélt áfram að sækja og þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma kom Bjarni Aðalsteinsson boltanum á Jakob hægra megin í vítateig Fram. Færið var þröngt en Jakob sá glufu og setti boltann í stöng og inn. Lokatölur 2-2.

Jón: Tökum bara þeirri úrslitakeppni sem býðst

Jóni Þóri Sveinssyni fannst sínir menn geta gert betur í skyndisóknum undir lok leiks.vísir/hulda margrét

Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, var skiljanlega svekktur eftir að hans menn köstuðu frá sér tveggja marka forskoti í uppbótartíma gegn KA.

„Fyrst og fremst er ég vonsvikinn að hafa ekki klárað leikinn. Sérstaklega í seinni hálfleik fannst mér við vera töluvert betra liðið. Við vorum klaufar að nýta okkur það ekki. KA gaf okkur færi á að bæta við mörkum en við tókum rangar ákvarðanir og fengum þetta í andlitið,“ sagði Jón eftir leik.

Hann setti Albert Hafsteinsson inn á í hálfleik og það gaf góða raun. Skagamaðurinn lagði bæði mörk Fram upp fyrir Fred.

„Okkur vantaði það sem Albert gefur okkur, ákveðin hlaup og hann er klókur sóknarmaður. Hann skapar usla þegar hann er inn á. Það skilaði því sem við vildum,“ sagði Jón. Honum fannst Fram vera með gott tak á KA, allt þar í uppbótartímanum.

„Við vorum með öll tök á leiknum og engin ástæða til að missa þetta niður. En mörk breyta leikjum. Þeir skoruðu eftir hornspyrnu og eftir það fengu þeir trú á að þeir gætu jafnað.“

Fram á enn möguleika á að komast í úrslitakeppni sex efstu liðanna þótt mörkin tvö sem liðið fékk á sig undir lokin í kvöld hafi gert því erfiðara fyrir.

„Við stefnum á að safna stigum og enda eins ofarlega og við getum. Við höfum misst af tækifærum. Við höfum gert jafntefli í tveimur leikjum í röð þar sem mér fannst við vera sterkari. En það er ekkert ef og hefði í boði. Við verðum að taka niðurstöðunni,“ sagði Jón.

„Ég er vonsvikinn að hafa ekki bætt við fleiri stigum en stigataflan leiðir þetta allt í ljós. Við tökum bara þeirri úrslitakeppni sem býðst.“

Jakob: Förum pínu sáttir héðan

Jakob Snær Árnason sá til þess að KA tapaði ekki fyrir Fram.vísir/hulda margrét

Jakob Snær Árnason sá til þess að KA fór heim til Akureyrar með eitt stig í farteskinu með því að skora jöfnunarmark liðsins gegn Fram á elleftu stundu.

„Ég held ég væri að ljúga ef ég segði að við færum allavega ekki pínu sáttir héðan. Að sjálfsögðu komum við hingað til að sækja stigin þrjú og við erum í harðri baráttu á toppnum en úr því sem komið var gæti þetta stig orðið stórt. Við virðum það,“ sagði Jakob í leikslok.

Á fimmtudaginn var KA í annarri stöðu og fékk á sig sigurmark í uppbótartíma gegn FH í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.

En sat tapið í Kaplakrika í leikmönnum KA í kvöld?

„Það er spurning. Ekki í löppunum en kannski í hausnum. Auðvitað vorum við sárir. Við áttum ekki okkar besta leik en vorum samt betri aðilinn og hefðum viljað alla leið. En á svona augnablikum verðum við að standa þétt saman og nýta það sem eftir er að tímabilinu,“ sagði Jakob.

Þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar hann skoraði jöfnunarmark KA með skoti í fjærhornið úr nokkuð erfiðri stöðu.

„Við Bjarni [Aðalsteinsson] náum einstaklega vel saman. Hann fann mig, færið var þröngt en ég sá smá glufu í klofinu á varnarmanninum. Það er aldrei leiðinlegt að klobba og skora, hvað þá í stöng og inn og á lokamínútu. Eina sem hefði toppað þetta er ef þetta hefði verið fyrir öllum þremur stigunum,“ sagði Jakob að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira