Erlent

Rússneskir grínistar blekktu Ian McKellen í spjall við Zelenskí

Magnús Jochum Pálsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Ian McKellen var ekki skemmt.
Ian McKellen var ekki skemmt. Getty/Karwai Tang

Breski leikarinn Ian McKellen greindi frá því í gær að tveir rússneskir grínistar, sem hugðust notfæra sér leikarann, hafi sent honum boð um einkasamtal við Volodímír Zelenskí, Úkraínuforseta. Þegar samtalið við forsetann hófst runnu tvær grímur á leikarann og lagði hann á þá.

Hinn 83 ára McKellen greindi frá þessu á Twitter á miðvikudag.

Í færslunni segir McKellen að hann sé ekki pólitíkus og því hafi hann verið hissa þegar hann fékk boð fyrir nokkrum vikum sem virtist vera frá sendiráði Úkraínu í London. Þar var honum boðið að eiga einkasamtal við Úkraínuforseta.

Eftir boðið hafði McKellen samband við nokkra tengiliði sína í Úkraínu yfir lögmæti boðsins sem hvöttu hann til að taka boðinu sem hann og gerði. Síðan hófst spjall þeirra.

Hins vegar kom fljótlega í ljós að maðurinn sem hann var að spjalla við var hvorki Zelenskí né annar úkraínskur embættismaður heldur annar tveggja í rússnesku gríntvíeyki. 

„Mér skilst að þeir séu vinsælir í Rússlandi, sem kemur á óvart vegna þess að brandararnir þeirra eru ekki fyndnir,“ skrifar McKellen á Twitter. 

„Ég hélt áfram að spila með og tók undir það sem þeir stungu upp á en var satt best að segja steinhissa að þeim þætti ég í þeirri stöðu að aðstoða Úkraínu af einhverju marki.“

Í lok Twitter-færslunnar skrifar McKellen að hann hafi hætt að taka þátt í uppátæki grínistanna þegar upp komst að um ömurlegt grín hafi verið að ræða. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×