Enski boltinn

Skoraði beint úr horni á æfingu og endurtók leikinn gegn liði Jóns Daða

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leikmenn Villa fagna mögnuðu hornamarki Brasilíumannsins.
Leikmenn Villa fagna mögnuðu hornamarki Brasilíumannsins. Dave Howarth - CameraSport via Getty Images

Douglas Luiz skoraði stórglæsilegt mark beint úr hornspyrnu er lið hans Aston Villa vann 4-1 sigur á Jóni Daða Böðvarssyni og félögum í Bolton Wanderers í enska deildabikarnum í gærkvöld.

Aston Villa hefur farið brösuglega af stað í ensku úrvalsdeildinni en liðið er með þrjú stig eftir þrjá leiki. Liðið tapaði fyrir nýliðum Bournemouth í fyrsta leik og fyrir Crystal Palace um helgina.

Því var tækifæri fyrir liðið að rífa sjálfstraustið upp gegn C-deildarliði Bolton Wanderers í gær. Það fór ekki vel af stað er Dion Charles kom Bolton yfir á 24. mínútu en tólf mínútum síðar jafnaði Douglas Luiz metin með marki beint úr hornspyrnu.

Aston Villa birtir myndskeið af markinu á samfélagsmiðlum sínum í dag og hafa með því myndskeið af nákvæmlega eins marki sem Luiz skoraði á æfingu fyrir leikinn. Það ýtir stoðum undir það að Luiz hafi skotið viljandi úr spyrnunni.

Staðan var 1-1 í hálfleik en mörk frá Danny Ings, Lucas Digne og Leon Bailey í síðari hálfleiknum tryggðu Villa 4-1 sigur og sæti í þriðju umferð bikarsins.

Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Bolton í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×