250. mark Kane tryggði Tottenham sigur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tottenham Hotspur vs Southampton FC
EPA

Harry Kane skoraði sitt 250. mark fyrir Tottenham er hann tryggði liðinu 1-0 sigur á Wolverhampton Wanderers í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Tottenham mætti áræðið til leiks eftir hlé í kjölfar slaks fyrri hálfleiks.

Tottenham var með fjögur stig fyrir leik dagsins, eftir dramatískt jafntefli við Chelsea síðustu helgi, en Úlfarnir voru aðeins með eitt stig og leituðu því enn síns fyrsta sigurs.

Það voru gestirnir frá Wolverhampton sem byrjuðu leikinn töluvert betur en leikmenn Tottenham virtust heillum horfnir í fyrri hálfleik. Spurs náðu aðeins einu skoti í átt að marki í fyrri hálfleiknum á meðan Úlfarnir áttu tólf marktilraunir.

Engin þeirra fór í netið og markalaust var í hléi.

Eitthvað virðist Ítalinn Antonio Conte hafa látið sína menn heyra það í hléinu en það virtist sem annað lið hefði mætt til leiks í síðari hálfleik. Þó gerði sá ítalski engar breytingar í hléi þrátt fyrir slaka frammistöðu sinna manna.

Harry Kane átti sláarskot snemma í síðari hálfleik og Heung Min Son fékk einnig gott færi. Þá tókst Tottenham að brjóta ísinn á 64. mínútu.

Son átti þá hornspyrnu frá vinstri sem fann Ivan Perisic á nærstönginni, hann flikkaði boltanum áfram og fann Kane einan og óvaldaðan á markteig hvar hann átti ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið.

Mark Kane var hans 250. fyrir félagið en hann er 16 mörkum á eftir Jimmy Greaves sem er markahæstur í sögu félagsins. Greaves skoraði 266 mörk á árunum 1961 til 1970.

Mark Kane reyndist það eina í leiknum og Tottenham vann 1-0 sigur. Liðið fer því, að minnsta kosti um stundarsakir, á topp deildarinnar með sjö stig en Arsenal og Manchester City eru með sex stig og eiga leik inni.

Wolves er með eitt stig í 15. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira