Enski boltinn

Real Madrid opnar á möguleikann að Casemiro fari til United

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Er Manchester United loksins að krækja í miðjiumann?
Er Manchester United loksins að krækja í miðjiumann? Dan Mullan/Getty Images

Spænska stórveldið Real Madrid virðist vera opið fyrir því að leyfa brasilíska miðjumanninum Casemiro að fara til Manchester United ef félagið er tilbúið að greiða yfir 60 milljónir punda fyrir leikmanninn.

United hefur verið orðað við heilan helling af leikmönnum undanfarna daga, en liðið hefur verið í leit að miðjumanni í allt sumar. Félagið hefur nú fengið þær fréttir að möguleiki sé á því að fá hinn þrítuga Casemiro í sínar raðir.

Casemiro hefur verið á mála hjá Madrídingum frá árinu 2013 og er mikils metinn innan félagsins. Þó virðist hann ekki vera ómissandi, enda er nóg til af miðjumönnum í Madrídarborg.

Gömlu refirnir Luka Modric og Toni Kroos eru enn í fullu fjöri, ásamt því að ungir og spennandi leikmenn á borð við Eduardo Camavinga, Aurelien Tchouameni og Federico Valverde eru til taks.

Madrídingar geta því ekki lofað Casemiro miklum spiltíma. Þá gæti það reynst sniðugt fyrir félagið að losa mann eins og Casemiro af launaskrá sinni og fá inn væna summu í kassann á sama tíma.

Manchester United hefur verið á höttunum á eftir djúpum miðjumanni frá því að félagsskiptaglugginn opnaði - og raunar lengur - og því gæti reyndur leikmaður eins og Casemiro verið það sem liðinu vantar einmitt núna.

Hvort að Casemiro, sem hefur unnið Meistaradeild Evrópu fimm sinnum, vilji hins vegar yfirgefa herbúðir Madrídinga til að spila í Evrópudeildinni með Manchester United á þó eftir að koma í ljós.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.