Erlent

Fund­u lík­ams­leif­ar ungr­a barn­a í göml­um ferð­a­tösk­um

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá heimili fjölskyldunnar sem fann líkamsleifarnar. Lögreglan segir rannsóknina vera erfiða.
Frá heimili fjölskyldunnar sem fann líkamsleifarnar. Lögreglan segir rannsóknina vera erfiða. AP/Dean Purcell/New Zealand Herald

Fjölskylda á Nýja-Sjálandi fann nýverið líkamsleifar í ferðatöskum sem keyptar voru á uppboði á netinu. Nú er komið í ljós að líkamsleifarnar voru af tveimur börnum sem talin eru hafa verið fimm til tíu ára gömul.

Unnið er að því að bera kennsl á börnin en talið er líklegra að þau hafi verið dáin í þó nokkur ár.

Meðlimir fjölskyldunnar tóku þátt í uppboði þar sem geymslufyrirtæki seldi innihald geymslna sem höfðu verið yfirgefnar. Þau keyptu innihald geymslu sem meðal annars innihélt ferðatöskur.

Þegar innihald geymslunnar hafði verið sent til þeirra og þau byrjuðu að opna töskurnar komu líkamsleifarnar í ljós. Líkamsleifarnar voru í tveimur töskum og töskurnar höfðu, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar, verið í geymslunni í minnst þrjú til fjögur ár.

Sjá einnig: Fundu líkams­leifar í tösku sem þau keyptu á upp­boði

Lögreglan segir enn ekki búið að bera kennsl á líkamsleifarnar með því að greina erfðaefni þeirra en talið sé að þau eigi ættingja sem búa enn á Nýja-Sjálandi. Þá segja forsvarsmenn lögreglunnar að þeir séu í samskiptum við Interpol og aðrar alþjóðlegar löggæslustofnanir, sem þykir til marks um að talið sé að þeir sem grunaðir eru um að hafa komið líkamsleifunum fyrir í töskunum séu nú erlendis.

Í frétt New Zealand Herald segir að meðal þeirra vísbendinga sem lögreglan sé að rannsaka snúi að því hver hafi leigt geymsluna sem hýsti töskurnar. Meðal annars sé verið að fara yfir upptökur úr öryggismyndavélum en það gæti verið erfitt þar sem langt sé síðan líkamsleifunum var komið þar fyrir.

Nágrannar fjölskyldunnar sem keyptu innihald geymslunnar segja barnaleikföng, vagnar og annað hafa verið í geymslunni.

Faamanuia Vaaelua, talsmaður lögreglunnar í Auckland, sagði blaðamönnum í morgun að rannsóknin væri á frumstigi. Hún væri mjög erfið og sérstaklega með tilliti til þess hversu ógeðslegt þetta mál væri. Lögregluþjónar væru þó staðráðnir í að hafa hendur í hári hinna seku.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.