Erlent

„Ég er mættur til að drepa drottninguna“

Samúel Karl Ólason skrifar
Jaswant Singh Chail ætlaði að myrða hina 96 ára gömlu drottningu til að hefna fyrir fjöldamorð breskra hermanna í Indlandi árið 1919.
Jaswant Singh Chail ætlaði að myrða hina 96 ára gömlu drottningu til að hefna fyrir fjöldamorð breskra hermanna í Indlandi árið 1919. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Maður sem handtekinn var við Windsor-kastala í Englandi á jóladag í fyrra, sagðist ætla að drepa Elísabetu drottningu. Maðurinn, sem heitir Jaswant Singh Chail og er tvítugur, var með grímu og vopnaður lásboga.

Öryggisverðir stöðvuðu hann þegar hann reyndi að komast inn í kastalann. Það var eftir að hann sást á lóð kastalans, á svæði þar sem hann er sagður hafa haft aðgang að híbýlum konungsfjölskyldunnar. Elísabet var þá stödd í kastalanum. Með henni var Karl Bretaprins og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar.

Öryggisvörður sem sá hann, spurði hvort hann gæti aðstoðað hann og þá mun Chail hafa svarað:

„Ég er mættur til að drepa drottninguna.“

Við það dró öryggisvörðurinn upp rafmagnsbyssu og skipaði Chail að leggjast í jörðinni, sem hann gerði.

Við húsleit fundust munir heima hjá honum sem sýndu að hann hafði áður sótt um vinnu hjá varnarmálaráðuneytinu og hernum, með því markmiði að komast nálægt konungsfjölskyldunni.

Frá hátíðarhöldum í sumar, þegar fagnað var upp á 70 ára valdatíð Elísabetar. Windsor-kastali sést í bakgrunni myndarinnar.EPA/NEIL HALL

Reyndi áður að komast nær konungsfjölskyldunni

Chail er sakaður um að hafa ætlað sér að myrða meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar og er sagður hafa varið mánuðum í að skipuleggja morðið. Áður en hann lagði af stað þennan dag tók Chail upp myndband þar sem hann sagðist leiður yfir því sem hann þyrfti að gera en hann ætlaði sér að ráða drottninguna af dögum, samkvæmt frétt Reuters.

Chail sagði það vera hefnd fyrir atvik frá 1919 þegar breskir hermenn skutu nærri því 400 síka til bana í norðanverðu Indlandi. Fólkið var óvopnað og var að mótmæla yfirráðum Breta yfir Indlandi. Indverjar hafa lengi krafist afsökunar frá Bretum vegna fjöldamorðsins.

Hann sagðist einnig ætla að hefna allra þeirra síka sem hefðu orðið fyrir mismunun eða ofbeldi vegna kynþáttar þeirra.

Frá því hann var handtekinn hefur Chail verið vistaður á geðheilbrigðisstofnun en en réttarhöldin gegn honum hófust í dag. Hann ræddi við dómara í gegnum fjarfundarbúnað en tók ekki afstöðu til sakarefnisins. Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferðin mun hefjast.


Tengdar fréttir

Hefur nú setið á valda­stóli næst­lengst allra þjóð­höfðingja

Elísabet II Englandsdrottning hefur nú setið á valdastóli næstlengst allra þjóðhöfðingja í mannkynssögunni. Frá og með deginum í dag hefur nú verið drottning í sjötíu ár og 127 daga, en einungis Loðvík XIV, konungur Frakklands á sautjándu og átjándu öld, sat lengur á valdastóli eftir að hafa tekið við krúnunni fjögurra ára gamall.

Tugir þúsunda fögnuðu drottningu allra drottninga

Hún á tvo afmælisdaga, fæðingardaginn og opinberan afmælisdag og hefur setið lengur en nokkur annar í hásæti Bretlands. Elísabet II Bretlandsdrottning er elskuð og dáð í heimalandinu og víða um heim og í dag var því fagnað með miklum hátíðarhöldum að sjötíu ár eru liðin frá því hún varð drottning.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×