Íslenski boltinn

„Jafntefli er betra fyrir okkur en þá“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskari Hrafni Þorvaldssyni, þjálfara Breiðabliks, fannst sínir menn hleypa Víkingi full auðveldlega inn í leikinn.
Óskari Hrafni Þorvaldssyni, þjálfara Breiðabliks, fannst sínir menn hleypa Víkingi full auðveldlega inn í leikinn. vísir/hulda margrét

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, sagði að jafnteflið gegn Víkingi, 1-1, kæmi sínum mönnum betur en Íslands- og bikarmeisturunum.

„Viðbrögðin eru blendin. Mér fannst við stjórna leiknum fyrstu sextíu mínúturnar, eða þar til þeir skoruðu. Mér fannst óþarfi að hleypa þeim aftur inn í leikinn. Við vorum miklu sterkari í fyrri hálfleik en svo skoruðu þeir og komust inn í leikinn sem ég er svekktur með. En Víkingur er með gott lið og var alltaf að fara að gera áhlaup,“ sagði Óskar eftir leik.

„Svo breytti rauða spjaldið leiknum og þegar öllu er á botninn hvolft get ég ekki verið ósáttur við stigið þótt mér finnist að við hefðum átt að vera búnir að gera út um leikinn.“

Mikið álag hefur verið á Breiðabliki og Víkingi að undanförnu og tveir leikmenn úr hvoru liði fóru meiddir af velli í leiknum.

„Ég held að þessi leikur hafi fært mönnum í sanninn um að leikmenn þessara tveggja liða eru viðkvæmir; viðkvæmari heldur en leikmenn annarra liða fyrir hnjaski. Logi [Tómasson] og Davíð [Ingvarsson] fóru af velli með höfuðmeiðsli en Kristinn [Steindórsson] og Davíð Örn [Atlason] eru báðir held ég með klassísk álagsmeiðsli. Menn verða viðkvæmir þegar álagið er mikið,“ sagði Óskar.

„Ég dáist að leikmönnum beggja liða fyrir orkuna og vinnuna sem þeir lögðu í leikinn. Bara jafntefli og það er betra fyrir okkur en þá. Jafntefli gerir það að verkum að við erum enn í forystusæti í deildinni. Ég ætla að kvarta neitt sérstaklega mikið en mér fannst við afhenda þeim yfirhöndina og frumkvæðið einum of auðveldlega.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.