Erlent

Skógar­eldar í ná­grenni Ís­lendinga­byggða á Spáni

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Reykjarmökkurinn undan gróðureldunum sést úr töluverðri fjarlægð.
Reykjarmökkurinn undan gróðureldunum sést úr töluverðri fjarlægð. Vísir/Daniel Giarizzo

Skógareldur braust út í bænum Guardamar del Segura, skammt sunnan við Alicante síðdegis. Eldar loga í um tíu metra fjarlægð frá íbúðarhúsum.

Upptök eldsins eru talin vera í nágrenni við kirkjugarð bæjarins sem telur um 16 þúsund íbúa, en miklu fleiri eru þar yfir sumartímann. Eldurinn ógnar þó ekki bænum sjálfum þar sem hraðbrautin er á milli elds og bæjar, en eldur logar glatt í skóginum, rétt um tíu metra frá hraðbrautinni.

Þá eru nokkur íbúðarhús í örskotsfjarlægð frá eldinum, mikið til íbúðir sem erlendir ferðamenn leigja yfir sumartímann. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Brynja Hlíðar tók af vettvangi.

Eldarnir sjást frá Íslendingabyggðum

Guardamar del Segura er nágrannabær Torrevieja og Orihuela Costa þar sem fjölmargir Íslendingar búa og dvelja í leyfum allt árið um kring. Eldurinn sést greinilega frá Torrevieja og þá er orðið vart við brunafnyk í bænum.

José Luis Sáez, bæjarstjóri Guardamar del Segura, segir í samtali við Información að til allrar guðs lukku sé vindátt hagstæð og að sem stendur þurfi ekki að rýma nein hús. Hins vegar hafi bæjarbúum brugðið illilega í brún þegar brunalykt og gríðarlega dökkan reyk fór að leggja upp í loftið. Mikill fjöldi manna hefur flykkst að síðdegis og fylgist með eldinum og slökkvistarfinu.

Baráttan við eldana í sjóðandi hita

Tvær sjóflugvélar og tvær þyrlur eru á flugi í nágrenni við eldana, önnur þyrlan er með vatnskörfu sem hún hellir yfir eldinn. Þá er allt tiltækt slökkvilið Guardamar og nærliggjandi bæja komið á staðinn.

Gríðarlegur hiti hefur verið á svæðinu í dag, þetta er heitasti dagur sumarsins hingað til, hitinn hefur víða farið yfir 40 gráður og í sumum strandbæjum á svæðinu er þetta heitasti dagur síðan mælingar hófust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×