Enski boltinn

Man. United sagt núna hafa áhuga á lærisveini Van Nistelrooy

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cody Gakpo fagnar hér marki með PSV á móti Mónakó í Meistaradeildinni í fyrra ásamt liðsfélaga sínum Armando Obispo.
Cody Gakpo fagnar hér marki með PSV á móti Mónakó í Meistaradeildinni í fyrra ásamt liðsfélaga sínum Armando Obispo. Getty/Photo Prestige

Manchester United hefur kannað möguleikann á að kaupa hollenska landsliðsmanninn Cody Gakpo frá PSV Eindhoven.

Ekkert verður að því að United kaupi hinn 33 ára gamla Marko Arnautović en Erik ten Hag er enn á ný að leita uppi leikmann til að styrkja framlínu liðsins. Að þessu sinni horfir hann til manns sem heillaði hann í hollensku deildinni.

Menn í kringum Gakpo hafa fengið að vita af áhuga United liðsins en félagið hefur ekki enn boðið í leikmanninn. Þetta kemur fram í frétt hjá bæði Sky Sports ESPN.

PSV vill fá í kringum 35 milljónir punda fyrir leikmanninn sem er 23 ára og 189 sentimetra vængmaður.

Knattspyrnustjóri PSV í dag er Ruud van Nistelrooy, fyrrum framherji Manchester United sem varð bæði markakóngur og enskur meistari með félaginu í upphafi aldarinnar.

Gakpo kom upp í gegnum unglingastarf PSV en á síðasta tímabili var hann með 21 mark og 15 stoðsendingar í 46 leikjum í öllum keppnum.

Gakpo var á skotskónum um síðustu helgi þegar hann skoraði tvívegis í 4-1 sigri PSV á FC Emmen í fyrstu umferð hollensku deildarinnar.

United hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel á leikmannamarkaðnum og missti nú síðast af Benjamin Sesko hjá RB Salzburg en áður var Ajax vængmaðurinn Antony of dýr fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×