Erlent

Hlaut lífs­tíðar­dóm fjór­tán árum eftir að hafa myrt dætur sínar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Yaser Said í dómsalnum á þriðjudag.
Yaser Said í dómsalnum á þriðjudag. Skáskot

Yaser Said var dæmdur í lífstíðarfangelsi í dag fyrir að skjóta dætur sínar, Aminu og Söruh Said, til bana árið 2008. Eftir morðin hvarf Said sporlaust og var á flótta undan bandarísku alríkislögreglunni í tólf ár, þar til hann var handtekinn árið 2020.

Sækjendur málsins sóttust ekki eftir dauðarefsingu. Hinn 65 ára Said var því dæmdur til lífstíðarfangelsis án möguleika á reynslulausn fyrir að myrða hina átján ára Aminu Said og hina sautján ára Söruh Said.

Stúlkurnar tvær fundust látnar í aftursæti leigubíls, sem faðir þeirra keyrði, við hótel í Irving-úthverfi í Dallas-borg í Texas á nýársdag árið 2008. Amina hafði verið skotin tvisvar en Sarah níu sinnum. 

Þrátt fyrir að hafa verið skotin svona oft var það Sarah sem náði að hringja í neyðarlínuna og tilkynna í símann að faðir hennar hefði skotið hana og hún væri að deyja.

Voru vissar um að hann myndi myrða þær

Viku áður en stúlkurnar voru myrtar höfðu þær flúið af heimili sínu ásamt móður sinni til að sleppa undan Said. Sækjandi málsins sagði í dómsalnum að stúlkurnar hefðu óttast um líf sitt og ákveðið að flýja eftir að faðir þeirra miðaði byssu að Aminu og hótaði að myrða hana.

Systurnar Amina Said (til vinstri) og Sarah Said (til hægri).Skjáskot

Tölvupóstur sem Amina sendi á kennara sinn þann 21. desember 2007, tíu dögum fyrir morðin, var lagður fyrir dómstólinn sem sönnunargagn. 

Í tölvupóstinum greindi Amina kennaranum frá því að þær systur hygðust flýja að heiman og sagði hún að faðir þeirra hefði gert líf þeirra að „martröð.“

„Hann mun, án dramatíkur eða vafa, myrða okkur,“ sagði Amina einnig í tölvupóstinum.

Samkvæmt lögregluskýrslu sem var gerð vegna rannsóknar á morðunum greindi fjölskyldumeðlimur frá því að Said hefði hótað annarri dóttur sinni fyrir að fara á stefnumót með manni sem væri ekki múslimi.

Sagðist hafa flúið af vettvangi

Yaser Said bar einnig vitni fyrir dómara á mánudag en þá sagðist hann ekki hafa myrt dætur sínar. 

Hann sagði að kvöldið sem þær hafi verið myrtar hafi hann farið með þær út að borða af því hann vildi „leysa vandamálið“ sem fólst í flótta þeirra að heiman. Þetta kvöld hafi hann talið einhvern vera að elta þau og hann hafi því skilið dætur sínar eftir í leigubílnum og flúið af vettvangi. 

Hann hefði ekki gefið sig fram til yfirvalda eftir morðin af því hann taldi víst að hann fengi ekki réttláta málsmeðferð.

Eftir morðin á stúlkunum hvarf Said sporlaust og var á flótta frá alríkislögreglunni í tólf ár. Hann var meira að segja á lista alríkislögreglunnar yfir eftirlýstustu glæpamenn heims í um sex ár. 

Það var ekki fyrr en 2020 sem alríkislögreglan handtók hann í Justin, norðvestan við Dallas, ásamt Islam Said, syni hans, og Yassim Said, bróður hans. Þeir höfðu hjálpað Said að flýja og hlutu báðir þunga dóma fyrir að aðstoða hann, Islam hlaut tíu ára dóm en Yassim tólf ára dóm.

Og nú hefur Yaser Said hlotið ævilangan fangelsisdóm fyrir morðin.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×