Erlent

Handtekinn fyrir heiðursmorð eftir tólf ár á flótta

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá myndir af þær systrum.
Hér má sjá myndir af þær systrum. Facebook/Justice for Sarah and Amina

Starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna handtóku í gær Yaser Abdel Said. Hann hefði verið meðal tíu efstu manna á lista FBI yfir eftirlýsta menn í sex ár. Said var handtekinn í Texas en hann er grunaður um að hafa myrt dætur sínar árið 2008. Um svokölluð heiðursmorð var að ræða.

Said er nú 63 ára gamall.

Þær Amina og Sarah fundust skotnar til bana í leigubíl föður þeirra í Irving í Texas. Hann hafði farið með þær á rúntinn undir því yfirskini að þau ætluðu að fá sér eitthvað í borða. Í staðinn skaut hann þær báðar margsinnis. Önnur þeirra í farþegasætinu og hin aftur í.

Yaser Abdel Said.AP/Lögreglan í Irving

Önnur þeirra dó þó ekki samstundis og náði að hringja í Neyðarlínuna. Hún sagðist vera að deyja og bað um hjálp.

Hún gat þó lítið annað sagt vegna sára sinna og lögregluþjónar fundu þær ekki. Um klukkustund eftir símtalið hringdi vegfarandi sem hafði gengið fram á þær í Neyðarlínuna.

Amina var átján ára og Sarah sautján.

Said sjálfur var horfinn með allt sitt sparifé og skammbyssuna sem hann notaði til að myrða dætur sínar. Hann er sagður hafa verið ósáttur við hegðun dætra sinna og þá sérstaklega það að Sarah hafði farið á stefnumót með stráki sem var ekki múslimi, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Móðir þeirra hafði reynt að flýja með þær viku áður.

Auk Said handtók lögreglan einnig bróður hans og son. Þeir hafa báðir verið ákærðir fyrir að aðstoða flóttamann.

Said var settur meðal þeirra efstu á lista FBI yfir eftirlýsta menn í desember 2014. Í yfirlýsingu frá FBI segir að starfsmenn stofnunarinnar hafi aldrei gefist upp í leitinni að honum. Ekki hefur verið gefið upp hvernig FBI uppgötvaði hvar Said héldi til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×