Erlent

Ezra Miller ákært fyrir húsbrot og að stela áfengi

Eiður Þór Árnason skrifar
Ezra Miller hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu.
Ezra Miller hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. AP/Evan Agostini

Leikarinn Ezra Miller var fyrr á þessu ári ákært fyrir húsbrot í Vermont í Bandaríkjunum. Málið er það nýjasta í röð atvika þar sem Miller hefur verið sakað um ofbeldi og óvenjulega hegðun.

Greint var frá því á mánudag að lögreglan í Vermont-ríki hafi brugðist við tilkynningu um innbrot í bænum Stamford þann 1. maí síðastliðinn. Nokkrar flöskur af áfengi hafi verið teknar ófrjálsri hendi af heimilinu á meðan húsráðendur voru ekki heima við. Miller var ákært eftir að lögregla skoðaði upptökur úr öryggismyndavélum og ræddi við vitni á staðnum.

Fram kemur í lögregluskýrslu að Miller hafi eftir þetta fundist skömmu fyrir miðnætti á sunnudegi og verið kallaður fyrir dómara þann 26. september vegna málsins, af því er fram kemur í frétt AP-fréttaveitunnar. Miller skilgreinir sig sem kvár og notar persónufornafnið hán.

Missti stjórn á sér á bar

Hið 29 ára gamla Hollywood-stirni var handtekið tvisvar á Hawaii fyrr á þessu ári, í fyrra skiptið fyrir óspektir og áreitni á karaókí-bar, og í seinna skiptið vegna líkamsárásar.

Greint hefur verið frá því að Ezra hafi missti stjórn á sér á umræddum bar og á hán að hafa öskrað á fólk, rifið hljóðnemann af ungri konu, notað ljót orð og ráðist á mann sem var í pílukasti.

Miller gisti hjá parinu sem fór fram á nálgunarbann eftir atvikið á barnum. Síðar féllu þau þá frá þeirri kröfu.

Vakti mikla athygli á Íslandi

Einnig hafa foreldrar hinnar átján ára gömlu Tokata Iron Eyes farið fram á nálgunarbann gagnvart Miller og sakað leikarann um að hafa áunnið sér traust dóttur sinnar og stundað óviðeigandi hegðun með henni frá því hún var tólf ára. Sjálf hefur Iron Eyes sagt þessar ásakanir vera ósannar.

Ítarlega hefur verið fjallað um dvöl Miller á Íslandi í erlendum fjölmiðlum en Íslandsdvöl háns komst í heimsfréttirnar þegar hán tók konu hálstaki á skemmtistaðnum Prikinu í apríl 2020.

Síðan þá hefur hallað undan fæti hjá Miller, ekki síst vegna ásakana um ofbeldi og undarlega hegðun háns. Miller hefur farið með hlutverk Flash í kvikmyndum Warner Bros. kvikmyndaversins síðustu ár og mun aftur fara í búning ofurhetjunnar í myndinni The Flash sem væntanleg er í kvikmyndahús í júní á næsta ári. Stjórnendur kvikmyndaversins hafa ekki gefið til kynna að hegðun Miller muni hafa áhrif á þær fyrirætlanir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×