Erlent

Fullviss um að Kína undirbúi innrás

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Joseph Wu, utanríkisráðherra Taívan.
Joseph Wu, utanríkisráðherra Taívan. Getty

Utanríkisráðherra Taívan kveðst fullviss um að Kínverjar undirbúi innrás inn í landið. Hann segir gremju Kínverja út í Nancy Pelosi, vegna heimsóknar hennar til Taívan, einungis vera afsökun fyrir því að halda heræfingum og ögrunum áfram.

Ráðherrann, Joseph Wu, ræddi fréttamenn í morgun. Kínverjar héldu uppteknum hætti með heræfingar sínar í morgun en Taívan hefur svarað í sömu mynt og hófu sambærilegar æfingar í dag. Wu sakar nú Kínverja um gróf brot á alþjóðalögum.

„Kínverjar hafa notað þessar æfingar til þess að undirbúa innrás sína í Taívan. Þeir eru að framkvæma mjög umfangsmiklar heræfingar með stórskotaliðshernaði. Við það bæta þeir árásum á tölvubúnað, dreifingu falsfrétta og efnahagsþvingunum, allt til þess að veikja stöðu Taívan.“

Hann segir æfingar hersins myndu hafa tekið mun lengri tíma, væru þær viðbrögð við heimsókn Pelosi. Taktík Kínverja segir hann ganga út á það að bægja öðrum ríkjum frá því að grípa inn í átökin og gera tilraun til þess að stilla til friðar milli ríkjanna. 

„Markmið Kína er hrófla við núverandi stöðu í Taívansundi og ríkinu í heild,“ segir Joseph Wu.

Í síðustu viku fóru um hundrað kínversk skip yfir miðlínu Taívansunds, óformleg landamæri ríkjanna, sem bæði ríki höfðu virt fram að þessu. Wu segir yfirvöld í Peking því í raun búin að slá eign sinni á sundið. Hann segir aðgerðir Kínverja beinlínis hafa miðað að því að virða samkomulag um sundið að vettugi.

„Þeir munu sennilega ekki stoppa hér, en áframhaldandi tilraunir Kínverja til þess að ógna Taívan munu ekki vekja upp skelfingu, né munu þeir nokkurn tímann sigra okkur, “ sagði Wu að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×