Erlent

Segir árásina stórskaðlega og krefst aðgangs að svæðinu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kjarnorkuverið í Zaporizhzhia
Kjarnorkuverið í Zaporizhzhia EPA

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna segir loftárásina sem gerð var á kjarnorkuver í Zaporizhzhia vera stórskaðlega og kallar eftir því að alþjóðlegir rannsakendur fái aðgang að kjarnorkuverinu. Úkraínumenn og Rússar saka hvorir aðra um að hafa staðið að loftárásinni á kjarnorkuverið sem er það stærsta í Evrópu.

„Hver einasta loftárás á kjarnorkuver er stórskaðleg árás (e. suicidal thing),“ sagði Guterres við fjölmiðlamenn í Japan í dag, tveimur dögum eftir minningarathöfn í Hiroshima þar sem minnst var þess að 77 ár eru liðin frá því að fyrstu kjarnorkusprengjunni var varpað.

Guterres gerir nú kröfu um að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin fái aðgang að kjarnorkuverinu til þess að rannsaka árásina og afleiðingar hennar. „Við styðjum sambandið í öllum þeirra leiðum til að koma á jafnvægi í kjarnorkuverinu,“ sagði Guterres en stofnunin hefur gefið það út að nú sé raunveruleg hætta á skelfilegum afleiðingum í kjarnorkuverinu.

Úkraínumenn lýstu því yfir að einn starfsmaður kjarnorkuversins sé illa slasaður og að þrír geislunarskynjarar hafi skemmst eftir framlengdar sprengjuárásir á laugardag.

Selenskí Úkraínuforseti sakar Rússa um að koma á „kjarnorku-ógnarástandi“ sem greiði leið fyrir enn frekari refsiaðgerðir í garð Rússa, í þetta sinn aðgerðir sem beinist að kjarorkugeira Moskvu. „Engri þjóð myndi líða öruggri á meðan hryðjuverkamenn skjóta flugskeytum á kjarnorkuver" sagði Selenskí í sjónvarpsávarpi.

Rússar náðu kjarnorkuverinu á sitt vald í upphafi marsmánaðar á þessu ári en verinu er enn stjórnað af úkraínskum tæknimönnum. 

Rússnesk yfirvöld hafa aftur á móti sakað Úkraínumenn um að hafa staðið að árásinni og sagt þá hafa skotið allmörgum flugskeytum að svæðinu og valdið miklu tjóni á húsum í kring. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×