Enski boltinn

Rooney: Haaland mun ríða baggamuninn í toppbaráttunni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rooney segir að Haaland verði markahæstur í vetur.
Rooney segir að Haaland verði markahæstur í vetur. vísir/Getty

Wayne Rooney, næstmarkahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, er þess fullviss að Erling Haaland verði markakóngur á komandi leiktíð og muni leiða Manchester City til Englandsmeistaratitilsins.

Haaland klúðraði algjöru dauðafæri í Samfélagsskildinum síðustu helgi og hlaut gagnrýni fyrir, auk háðs frá stuðningsmönnum annarra liða. Hann svaraði heldur betur fyrir sig í dag þegar hann skoraði bæði mörk Manchester City í 2-0 sigri á West Ham í sínum fyrsta deildarleik fyrir tímabilið.

Rooney segir að marga hafa gleymt sér í gleðinni yfir klúðri Haalands, þar sem hann hafi séð á hreyfingum hans og spilamennsku að hann verði öflugur á komandi leiktíð.

Andmælendurnir nutu þess að sjá Haaland klúðra í Samfélagsskildinum. Ég sá þetta á annan hátt. Ég sá hvers vegna hann er að fara að skora helling á Englandi og mun ríða baggamuninn í titilbaráttunni. Ég held að hann geti skorað mark í hverjum leik og muni verða markakóngur, sagði Rooney.

Rooney veit sitthvað um markaskorun á Englandi en hann skoraði á sínum tíma 208 mörk í ensku úrvalsdeildinni. Aðeins Alan Shearer skoraði fleiri, 260 talsins.

Hann er í dag þjálfari DC United í bandarísku MLS-deildinni og fékk nýverið Guðlaug Victor Pálsson í sínar raðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×