Umfjöllun og viðtöl: Fram 3-3 Víkingur | Fram náði stig eftir mikla dramatík

Sindri Már Fannarsson skrifar
diego
vísir/diego

Fram gerði í kvöld 3-3 jafntefli við Íslands- og bikarmeistara Víkinga á Framvellinum í Úlfarsárdal í 16. umferð Bestu deildar karla. Fram komust í 2-0 og í kjölfarið skoruðu Víkingar þrjú mörk á átta mínútum, áður en Framarar jöfnuðu aftur í lok leiksins.

Í fyrri hálfleik komust Framarar yfir eftir hægar fyrstu 10 mínútur. Það hafði verið hátt tempó og mikil harka en lítið um færi. Framarar sóttu upp vinstri kantinn og spiluðu sig inn á teig Víkinga og boltinn endaði hjá Magnúsi Þórðarsyni, sem leit út fyrir að vera við það að tapa boltanum en hann náði að koma tá í boltann og setja hann í netið. Í kjölfarið færðu Framarar sig neðar á völlinn, og fyrir utan mark Alberts Hafsteinssonar sem var dæmt af, áttu þeir ekki aðra marktilraun í hálfleiknum. Víkingar sóttu og sóttu og stjórnuðu öllu spili og flæði leiksins. Allt kom þó fyrir ekki og staðan enn 1-0 fyrir Fram í hálfleik.

Það virtst vera það sama uppi á teningnum í seinni hálfleik, Framarar komust varla yfir miðju. Og þó, eftir 10 mínútna leik í seinni hálfleik komust Framarar í sókn og Albert Hafsteinsson skoraði skallamark, í þetta skiptið löglegt. Þetta var algjörlega gegn gangi leiksins en markið virtist gefa Víkingum blóð á tennurnar. Mínútu eftir að Víkingar fengu á sig mark svöruðu þeir fyrir sig og minnkuðu muninn. Logi Tómasson átti flotta fyrirgjöf inn á teiginn þar sem Davíð Örn Atlason vann skallaboltann og stangaði hann í netið. Sjö mínútum eftir það voru Víkingar aftur í sókn, Logi Tómasson átti skalla sem fór í varnarmann en Helgi Guðjónsson fylgdi því eftir og jafnaði metin. Á sömu mínútu skoruðu Víkingar þriðja markið, í þetta sinn var það Erlingur Agnarsson, og allt leit út fyrir að Víkingar myndu sækja fyrsta sigur útiliðs gegn Fram í sumar.

Á 87. mínútu fengu Framarar hornspyrnu, Guðmundur Magnússon vann skallaeinvígi, Ingvar Jónsson ver skallann, virðist ná einhverju haldi á boltanum en Brynjar Gauti Guðjónsson tæklar boltann inn og jafnar metin, við mikil mótmæli Víkinga. Víkingar héldu í kjölfarið áfram að sækja og reyndu allt sem þeir gátu til að sækja stigin þrjú, þeir komust nálægt því að skora fjórða markið í uppbótartíma þegar Erlingur Agnarsson átti skalla í slánna, en þurftu að lokum að sætta sig við eitt stig.

Af hverju var jafntefli?

Jafntefli var eiginlega ekki sanngjörn niðurstaða miðað við gang leiksins. Framarar gerðu gríðarlega vel í færanýtingu en bæði liðin áttu góðan leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Ólafur Íshólm Ólafsson átti frábæran leik í marki Framara en í liði Víkinga stóðu Logi Tómasson, Birnir Snær Ingason og Danijel Dejan Djuric upp úr.

Hvað gekk illa?

Eins og stendur hér að ofan þá áttu bæði liðin bara nokkuð góðan leik. Framarar hefðu mátt koma sér ofar á völlinn fyrr í leiknum og Víkingar hefðu átt að skora fleiri.

Hvað gerist næst?

Víkingar halda til Póllands á morgun, en þeir eiga leik við Lech Poznan í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu. Fyrri leikurinn endaði 1-0 Víkingum í vil í Víkinni en seinni leikurinn er í Póllandi á fimmtudaginn klukkan 18:30. Næsti deildarleikur Víkinga er hinsvegar gegn toppliði Breiðabliks á mánudaginn í næstu viku, en með sigri gætu Víkingar minnkað forskot Blika í 5 stig með leik inni. Næsti leikur Fram er gegn Leikni Reykjavík í Úlfarsárdalnum, mánudaginn 15. ágúst klukkan 19:15.

„Örugglega versta liðið sem við gátum lent á móti á þessu augnabliki“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.Vísir/Diego

„Mér fannst þetta frábær leikur. Við vorum virkilega góðir í kvöld og Framarar líka. Mikið hrós til Framaranna, þeir spiluðu mjög vel, létu okkur hafa fyrir hlutunum. Þeir eru örugglega versta liðið sem við gátum lent á móti á þessu augnabliki, ég var að vonast eftir rólegum leik til að hvíla okkur fyrir átökin á fimmtudaginn en við sýndum karakter, klúðruðum mörgum færum í fyrri hálfleik og allir voru að vorkenna sér þegar Framarar voru komnir í 2-0. Sem betur fer náðum við markinu snemma. Svo fylgdu tvö önnur í kjölfarið og ég hélt við værum með unninn leik en svo kemur þetta jöfnunarmark, það er mjög svekkjandi“, sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings í samtali við Vísi eftir leik.

Arnar gaf ekki mikið fyrir að jöfnunarmark Framara hafi verið ólöglegt. „Ég hef ekki séð endurtekningu á því, það er ómögulegt fyrir mig að vera hérna á boðvanginum og sjá einhverja 100 metra, ég er orðinn fimmtugur þannig að ég hef ekki það góða sjón. En það bara kemur í ljós og það í rauninni skiptir engu máli, það breytist ekkert eftir því hvort það var ólöglegt eða löglegt, leikurinn endaði 3-3“.

„Það hefði verið sætt að fara til Póllands með góðan móralskan sigur í farteskinu en kannski það jákvæða í þessu er að við unnum alla vega eitt stig á Blikana“, sagði Arnar en hann var ekki á því að hausinn hefði veirð farinn til Póllands. „Þetta er tricky, að vera í svona verkefnum, gaman en samt tricky. Stundum gefur hausinn aðeins eftir en mér fannst það ekki vera raunin í kvöld, mér fannst orkustigið vera gott hjá okkur og við börðumst og hlupum vel og við vorum bara að mæta góðu liði sem er á góðu runni hérna á heimavelli og það er enginn leikur gefins í þessari deild og þeir létu okkur bara hafa fyrir þessu. En að fá þessi þrjú mörk á okkur er virkilega svekkjandi, við erum búnir að fá á okkur núna fimm mörk í seinustu tveimur leikjum og það verður bara að segjast eins og er, við þurfum að laga það ef við ætlum að eiga möguleika á því að verja titlana“.

„Það gerðist kannski ekkert, við fáum á okkur klaufaleg mörk“

Jón Sveinsson, þjálfari Fram.Vísir/Diego

„Við áttum undir högg að sækja, lengst af leiknum. Við komumst samt í 2-0 og sýnum að við erum alltaf hættulegir fram á við og getum skapað færi og skorað mörk. Það lá soldið á okkur og Víkingarnir voru mjög öflugir í dag, það var mikil orka sem þeir settu í leikinn en við héldum þetta út. Svo kom þarna kafli þar sem við fáum á okkur þrjú mörk og eftir það var ég kannski ánægðastur með liðið. Þá byrjuðum við að þora og spiluðum boltanum betur en það gekk ekki alveg nógu vel framan af leik fannst mér“, sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram í viðtali við Vísi eftir leik.

Aðspurður hvað hefði gerst á þessum 8 mínútna kafla þar sem Fram fengu á sig þrjú mörk sagði Jón: „Það gerðist kannski ekkert, við fáum á okkur klaufaleg mörk. Það var fullt af vafasömum atriðum og bæði liðin argandi og ekki sátt, en mér fannst brotið á Brynjari í aðdraganda fyrsta marksins (hjá Víkingum) og þeir svona fá blóð á tennurnar og eru náttúrulega með frábært lið, Víkingarnir, fyrir mér líklegast besta lið á landinu um þessar mundir. Þannig að þeir ætluðu bara að klára leikinn og gera vel og skora þrjú mörk á stuttum tíma. Við gefum aðeins eftir, erum að missa boltann illa fyrir framan markið okkar. En við komum til baka og náðum í þriðja markið til þess að jafna leikinn og við erum ennþá taplausir hérna heima“.

Jón telur að jöfnunarmark Framara hafi verið löglegt. „Ég sé bara að boltinn, mér sýnist Ingvar verja hann, eða ég held að hann verji hann og boltinn dettur niður fyrir hann, hann hendir sér niður og Brynjar á móti og sparkar honum inn, mér finnst Ingvar ekki vera með hendur á boltanum, þá held ég að það sé ekkert ólöglegt við þetta. En ég skil alveg að Víkingarnir hafi verið ósáttir og súrt að fá á sig jöfnunarmark svona seint í leiknum. Þeim fannst klárlega vera brotið á Ingvari þannig að þeir voru ekkert sáttir með þetta. Það væri gaman að sjá þetta aftur en mér fannst þetta vera í lagi“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira