Íslenski boltinn

Kom inn af bekknum ári eftir að hún tilkynnti að skórnir væru farnir á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir var óvænt í liði Selfyssinga í kvöld.
Hólmfríður Magnúsdóttir var óvænt í liði Selfyssinga í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnukonan Hólmfríður Magnúsdóttir var óvænt í liði Selfyssinga í Bestu-deild kvenna í kvöld. Liðið gerði markalaust jafntefli gegn ÍBV, en Hólmfríður lagði skóna á hilluna fyrir tæpu ári síðan.

Þann 17. ágúst á síðasta ári sendi knattspyrnudeild Selfoss frá sér tilkynningu þar sem kom fram að Hólmfríður hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hólmfríður, sem nú er að verða 38 ára gömul, átti þá von á barni og ákvað því að kalla þetta gott af knattspyrnuiðkun.

Það kom því líklega einhverjum á óvart þegar lesið var yfir leikskýrsluna í leik Selfoss og ÍBV þegar nafn Hólmfríðar birtist þar. Hólmfríður hóf leik á bekknum, en kom inn á þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Hólmfríður tekur skóna niður af hillunni frægu. Hún hafði einnig tekið þá ákvörðun í mars á seinasta ári, en Selfyssingar sannfærðu hana um að leika eitt tímabil með liðinu.

Hólmfríður er ein reyndasta knattspyrnukona Íslandssögunnar, en hún hefur leikið vel yfir 300 deildarleiki á sínum ferli. Þá á hún einnig að baki 113 leik fyrir íslenska landsliðið þar sem hún hefur skorað 37 mörk sem gerir hana að næstmarkahæsta leikmanni íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi.

Þá má einnig bennda á þá skemmtilegu staðreynd að Selfyssingar gerðu tvöfalda skiptingu þegar Hólmfríður kom inn á, en liðið skipti Jóhönnu Elínu Halldórsdóttur einnig inn á. Hólfríður var að leika deildarleik númer 335 á ferlinum, en Jóhanna sinn fyrsta í meistaraflokki. Hólmfríður er 22 árum eldri en Jóhanna sem þýðir að Hólmfríður lék sinn fyrsta meistaraflokksleik sama ár og Jóhanna kom í þennan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×