Enski boltinn

Öllum leikmönnum skylt að læra um samþykki fyrir kynlífi

Sindri Sverrisson skrifar
Enska úrvalsdeildin og enska knattspyrnusambandið hafa hlotið gagnrýni fyrir aðgerðaleysi varðandi kynferðisbrotamál leikmanna, meðal annars eftir að alls sjö konur kærðu Benjamin Mendy, leikmann Manchester City, fyrir nauðgun.
Enska úrvalsdeildin og enska knattspyrnusambandið hafa hlotið gagnrýni fyrir aðgerðaleysi varðandi kynferðisbrotamál leikmanna, meðal annars eftir að alls sjö konur kærðu Benjamin Mendy, leikmann Manchester City, fyrir nauðgun. Getty/Matt McNulty

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa kynnt nýjar reglur til að sporna gegn því að leikmenn og þjálfarar liðanna í deildinni brjóti af sér kynferðislega.

Það er enska blaðið The Telegraph sem greinir frá þessu í dag. Blaðið segir að öllum leikmönnum og þjálfurum í ensku úrvalsdeildinni verði gert skylt að hljóta þjálfun varðandi samþykki fyrir kynlífi.

Leikmenn og þjálfarar munu hitta sérfræðinga í þessum málum og þau félög sem ekki fara eftir þessum reglum munu hljóta refsingu.

Reglurnar eru settar í kjölfar gagnrýni og þrýstings á ensku úrvalsdeildina og enska knattspyrnusambandið vegna kynferðisbrota leikmanna. Til stendur að sams konar reglur verði settar fyrir félög í neðri deildum Englands.

Samvkæmt frétt The Telegraph hefur aftur á móti enn sem komið er ekki verið brugðist við ákalli eftir því að leikmenn sem handteknir eru grunaðir um nauðgun, séu settir í leikbann.

Enska úrvalsdeildin mun áfram, eins og fram til þessa, vera með námskeið fyrir unga leikmenn þar sem þeir fá meðal annars kennslu varðandi kynlíf með samþykki, kynferðislega áreitni og einelti. Slík þjálfun er hins vegar fyrst núna orðin skylda fyrir fullorðna leikmenn félaganna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.